Innlent

Ein hinna reknu segir konunum kastað fyrir ljónin

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Eva Sigrún segir sorglegt að konunum, sem undanfarið hafi fjölgað innan embættis ríkislögreglustjóra, sé kastað fyrir ljónin þegar á reynir.
Eva Sigrún segir sorglegt að konunum, sem undanfarið hafi fjölgað innan embættis ríkislögreglustjóra, sé kastað fyrir ljónin þegar á reynir. Vísir

Fyrrverandi starfsmaður í landamæradeild ríkislögreglustjóra, sem var sagt upp störfum í vikunni, getur ekki orða bundist yfir framferði embættis ríkislögreglustjóra. Hann segir að störf þriggja starfsmanna í landamæradeildinni hafi verið lögð niður, og erfitt sé að sjá hvernig embættið ætli að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til deildarinnar í framhaldinu. Konurnar þrjár sem sagt var upp hafi nýlega lýst yfir áhyggjum og óánægju með framgöngu nýs deildarstjóra landamæradeildarinnar.

Í vikunni var greint frá því að á starfsmannafundi ríkislögreglustjóra hefði verið tilkynnt um uppsagnir innan embættisins. Þremur konum í landamæradeild embættisins hefði verið sagt upp.

Þungt andrúmsloft er innan dómsmálaráðuneytisins og ákveðinna deilda embættis ríkislögreglustjóra vegna greiðslna embættisins til ráðgjafafyrirtækisins Intru.

Eva Sigrún Óskarsdóttir er ein þeirra þriggja sem var sagt upp í vikunni, en í færslu á samfélagsmiðlum segist hún ekki geta orða bundist yfir atburðum vikunnar.

Rauntölur uppsagna á reiki

Eva segir að fréttir af uppsögnum embættisins mjög á reiki, en enginn virðist kannast við uppsagnir í öðrum deildum en landamæradeildinni.

„Í fréttum sjónvarps nefndi ríkislögreglustjóri einmitt töluna 22. Hins vegar kom í ljós á starfsmannafundi gærdagsins að aðeins 5 manns í allri stofnuninni sem telur örugglega vel yfir 200 manns hefði verið sagt upp, hitt voru starfsmenn sem eru að fara á eftirlaun eða samningar sem yrðu ekki endurnýjaðir.“

„Af þessum fimm starfsmönnum voru því einmitt þrír kvenkyns reynsluboltar í fámennri og mjög svo sérhæfðu landamæradeildinni sem deildu meira að segja saman sömu 10 fermetrunum og höfðu nýlega lýst yfir við sviðsstjóra áhyggjum og óánægju okkar kvennanna með framgöngu nýs deildarstjóra landamæradeildar,“ segir Eva.

Erfitt að sjá hvernig deildin muni standast kröfur

Eva segir að erfitt sé að sjá hvernig þeir sem eftir standa hjá ríkislögreglustjóra eigi að geta staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til landamæradeildarinnar, þar sem störf þeirra þriggja sem sagt var upp voru lögð niður.

„Ég ætla ekki að telja upp allt það sem ég hef lagt af mörkum í starfi eða hef fram að færa en segi án þess að hika að það er enginn sem speglar nákvæmlega þá þekkingu og reynslu sem ég hef aflað mér síðustu rúmu 5 árin og ólíklegt að svo verði á næstu mánuðum og jafnvel árum.“

„Ég sem hef verið svo stolt af því hvernig konum hefur fjölgað og fengið framgöngu og tækifæri innan stofnunarinnar en okkur er svo kastað fyrir ljónin þegar á reynir. Það þarf enga geimvísindaútreikninga til að sjá að dæmið gengur ekki upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×