Innlent

Rotaðist við líkamsárás í Mosfellsbæ

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Mosfellsbær. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá Mosfellsbær. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Þolandi líkamsárásar sem tilkynnt var um í Mosfellsbæ sagðist hafa rotast við atlöguna. Hann sat eftir á vettvangi með skurð á höfði þegar lögreglu bar að garði.

Árásin er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en þolandinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Önnur líkamrárás var gerð í miðborg Reykjavíkur en gerandi hafði flúið vettvang. Lögregla hafði hendur í hári hans skömmu síðar og var hann handtekinn. Fórnarlambið var flutt á slysadeild til frekari aðhlynningar og er árásin sögð til rannsóknar.

Nokkuð var um umferðaróhöpp og ölvunarakstur. Tilkynnt var um bifreið sem hafði verið ekið út af Elliðavatnsvegi. Ökumaðurinn sagði lögreglu að hann hefði misst stjórn á bifreið sinni en hann reyndist ómeiddur. Bifreiðin var aftur á móti óökufær og var hún dregin af vettvangi með dráttarbifreið.

Í póstnúmeri 108 var tilkynnt um tveggja bíla árekstur. Farþegar urðu fyrir minniháttar meiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×