RÚV greinir frá þessu og hefur eftir Hildu Jönu Gísladóttur, oddvita Samfylkingarinnar. Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri, staðfestir þetta sömuleiðis í samtali við fréttastofu.
Þetta eru aðrar meirihlutaviðræðurnar sem sigla í strand á Akureyri eftir sveitarstjórnarkosningarnar en fyrst gengu L-listi Bæjarlistans, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn til formlegra viðræðna.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknarflokks á Akureyri, sagði í samtali við fréttastofu á föstudag að viðræður flokksins við Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn gengu vel en töluvert væri þó í land.
„Það er mjög góð stemning í hópnum og bjartsýni um að við náum að landa þessu.“ Þá bætti hún við að enginn hafi gert tilkall til bæjarstjórastólsins en Ásthildur Sturludóttir, sitjandi bæjarstjóri, var faglega ráðin og er ótengd flokkunum.
Allir að þreifa á öllum
Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti L-listans, segir að fréttir morgunsins hafi komið sér og öðru L-listafólki á óvart.
„Við í L-listanum erum að hittast núna og ræða þá stöðu sem upp er komin. Nú er allt opið aftur,“ segir hún í samtali við fréttastofu.
Hafa einhverjir oddvitar haft samband við þig í morgun?
„Það eru allir að þreifa á öllum.“
Á miðju seinasta kjörtímabili mynduðu allir flokkar í bæjarstjórn samstjórn og vísuðu til erfiðrar stöðu bæjarins vegna kórónuveirufaraldursins. Fulltrúar flokkanna voru afdráttarlausir fyrir nýafstaðnar kosningar með að ekki stæði til að halda því fyrirkomulagi áfram.
Alls fengu sjö flokkar fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar í kosningunum og er L-listi Bæjarlistans stærstur með þrjá fulltrúa. Alls sitja ellefu fulltrúar í bæjarstjórn og fengu Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Miðflokkurinn samtals sex menn inn.
Ekki náðist í oddvita Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins eða Miðflokksins við vinnslu fréttarinnar. Fréttin hefur verið uppfærð.