Skoðun

Megi heppnin vera með þér… að loknu fæðingar­or­lofi

Heiðdís Geirsdóttir skrifar

Við maðurinn minn erum heppin, ég er á leið aftur að vinna í haust eftir dásamlegt fæðingarorlof og við erum ein af þessum heppnu. Við erum nefnilega með pláss hjá dagforeldri. Þetta er staðreynd og hún er pínulítið galin. Það á ekki að vera spurning um heppni að barn fái dagvistun að loknu fæðingarorlofi. Það er bara ekki sanngjarnt. Þegar frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar var samþykkt árið 2020 og fæðingarorlof lengt í 12 mánuði var mikið framfaraskref stigið. Nú er kominn tími til að taka næsta skref. Sannarlega væri heppilegast ef fæðingarorlof yrði lengt í 18 mánuði og barn kæmist þá beint inn á leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Við getum því miður ekki boðið það hér, ríkið þyrfti að koma að slíku. En við getum þó boðið lausnir og fjölgað þeim úrræðum sem standa foreldrum til boða að loknu fæðingarorlofi, núna. Hvaða umönnun barn fær, þau tengsl sem það myndar og áreiti sem það verður fyrir fyrstu ár ævinnar hefur allt mikil mótandi áhrif á barnið. Í Kópavogi eru börn alla jafna komin með leikskólapláss á öðru aldursári, sum aðeins fyrr og önnur seinna, sá breytileiki stafar einkum af því að aðeins er unnt að taka stóran hóp ungra barna inn í skólana að hausti þegar elstu börnin fara á næsta skólastig, í grunnskóla. Með heimgreiðslum til foreldra væri hægt að gera foreldrum það kleift að vera heima með börn sín þar til þau fá pláss á leikskóla eða til tveggja ára aldurs. Það er skref sem Framsókn vill taka og myndi breyta miklu fyrir fjölskyldur ungra barna, núna. En ekki hafa allir foreldrar kost á eða hug á að vera svo lengi frá vinnu, hvað með þá? Jú fjölbreytni er lykilatriði í þessu eins og svo mörgu öðru. Framsókn ætlar að styrkja dagforeldra í bænum, leitast við að fjölga þeim og gera dagvistun hjá dagforeldrum að raunhæfum kosti fyrir foreldra sem það kjósa auk þess að bæta inntökuferli svo það sé ekki bara spurning um heppni að fá pláss.

Það má nefnilega ekki gleyma því að leikskólar eru fyrst og fremst skólar, fyrsta skólastigið og því mikilvægt að gera greinarmun á dagvistun og faglegu skólastarfi. Vissulega má einnig tala fyrir fjölgun leikskólarýma og ungbarnadeildum en þau loforð eru eins og að pissa í skóinn sinn, skammgóður vermir. Með sífelldum loforðum um fjölgun barna í leikskólum er vegið að því mikilvæga og metnaðarfulla faglega starfi sem er í leikskólum bæjarins, en það starf er til fyrirmyndar i Kópavogi. Hlutfall faglærða starfsmanna á leikskólum í Kópavogi er með því hæsta sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu og viljum við halda því þannig. Með fjölgun leikskólarýma myndi hlutfall leikskólakennara lækka enn frekar og það er ekki sú þróun sem við viljum sjá á fyrsta skólastiginu. Framsókn í Kópavogi vill raunhæfar lausnir en ekki tálsýn, við ætlum að gera það besta fyrir börnin og það er ekki endilega það sama sem hentar öllum börnum og foreldrum, það er því mikilvægt að bjóða fjölbreyttari mögulega að loknu fæðingarorlofi. Verum raunsæ, hættum að stóla á heppnina og mætumst á miðjunni í Kópavogi.

Höfundur skipar 8. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×