Skoðun

Öll dýrin í Kópavogi eiga að vera vinir

Gunnar Jónsson skrifar

Vinir Kópavogs eru grasrótarsamtök sem vilja tryggja að skipulagsákvarðanir séu yfirvegaðar, undirbúningur í samræmi við ferli sem mælt er fyrir um í lögum og hagsmunir heildarinnar hafðir að leiðarljósi. Það er nefnilega að mörgu að hyggja ef vel á að byggja.

Vinir Kópavogs eru ekki stjórnmálahreyfing studd af skattfé. Þeir hafa hinsvegar óbilandi trú á málstaðnum og þurfa að finna aðrar leiðir til að koma honum á framfæri en keyptar auglýsingar.

Sumir Vinanna hafa brugðið á það ráð að prenta borða til þess að koma skilaboðum á framfæri. Borðana hengja þeir síðan upp á lóðum sínum og eignum.

Ýmiskonar skilaboð eru prentuð á borðana, þar sem fólk er hvatt til þess að kjósa Vini Kópavogs. Iðulega er í þeim broddur sem beinist að bæjaryfirvöldum, enda snýst lýðræði beinlínis um að andæfa valdhöfum. Bæjaryfirvöld eru viðkvæmari fyrir gagnrýninni en hægt var að láta sér detta í hug. Sannleikanum verður víst hver sárreiðastur.

Yfirvöld hafa sent starfsmenn bæjarins til þess að fjarlægja borðana. Það mun gert með vísan í lögreglusamþykkt, sem varðar auglýsingar á almannafæri. Borðarnir eru hinsvegar alls ekki á almannafæri heldur eignum þeirra sem setja þá upp. Skilaboðin eru stjórnarskrárvarin tjáning þeirra sem fram setja og borðarnir eign þeirra.

Bæjaryfirvöld hafa ekki nokkra heimild til þess að fara inn á einkaeignir til að fjarlægja eigur þeirra sem þar búa. Væri slíkri heimild til að dreifa, sem ekki er, væri það lögreglunnar að fjarlægja en ekki saklausra bæjarstarfsmanna gerðra út af hörundssárum yfirvöldum.

Aðsend

Skömm er að bæjaryfirvöldum sem senda starfsmenn sína í lögleysu inn á lóðir Kópavogsbúa til þess að meina þeim að tjá skoðanir sínar. Enn meiri skömm er að yfirvöldum sem geta ekki tekið gagnrýni. Þetta athæfi bæjaryfirvalda undirstrikar nauðsyn þess að nýtt verklag verði tekið upp í samskiptum bæjaryfirvalda við Kópavogsbúa. Vinir Kópavogs munu taka upp nýtt verklag.

Sjálfur lét ég prenta og setja upp borða með aðlögun að fleygum orðum úr Dýrunum í Hálsaskógi „Öll dýrin í Kópavogi eiga að vera vinir". Athæfi bæjaryfirvalda sýnir að ég hefði átt að hafa borðann stærri og skilaboðin skýrari. Refir eiga nefnilega misauðvelt með að læra.

Höfundur er Kópavogsbúi og aðdáandi Thorbjörns Egner.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×