Innlent

Vonar að verslunin lifi af þrátt fyrir brotthvarf sitt

Bjarki Sigurðsson og Snorri Másson skrifa
Verslunin Brynja við Laugaveg 29 fær nýja eigendur á næstunni.
Verslunin Brynja við Laugaveg 29 fær nýja eigendur á næstunni. Bjarni Einarsson

Í gær var greint frá því að verslunin Brynja við Laugaveg 29 leitaði að nýjum eigendum. Eigandinn vonar að rekstur verslunarinnar haldi áfram eftir söluna. 

Byggingavöruverslunin Brynja hefur staðið við Laugaveg 29 síðan árið 1929. Brynjólfur H. Björnsson, eigandi Brynju, hefur verið við störf í versluninni í sextíu ár, frá því að hann var tvítugur. 

„Já, ég vona það. Ég heyri það á fólkinu sem hefur komið í dag að búðin má ekki fara,“ segir Brynjólfur aðspurður hvort hann vilji að verslunin haldi áfram með nýjum eigendum. 

Brynjólfur segir að verðmiðinn sé enn óljós en fasteignagjöldin hafa hækkað mikið síðan hann tók við rekstrinum árið 1993.

Brynja er ansi lítil verslun miðað við aðrar byggingavöruverslanir á Íslandi og aðgengið ekki það besta fyrir þá sem koma akandi. Fátt er um bílastæði við Laugaveg og erfitt er að komast til búðarinnar nema fótgangandi.

„Við erum ekki hressir með það. Það er búið að taka bílastæði hér og þar og ekkert komið í staðinn. Svo er verið að loka götunni, snúa götunni og verið að keyra upp götuna sem náttúrulega enginn skildi og enginn skilur enn þá,“ segir Brynjólfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×