Innlent

Tölu­vert tjón á hóp­ferða­bíl eftir „graff“

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan hafði í nægu að snúast í dag.
Lögreglan hafði í nægu að snúast í dag. Vísir/Vilhelm

Snemma í morgun var tilkynnt um eignarspjöll í Hlíðahverfi í Reykjavík. Þar höfðu skemmdarvargar spreyjað málningu eða „graffað“ á hópferðabíl svo töluvert tjón hlaust af.

Talsverður erill hefur verið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi ef marka má dagbókarfærslu hennar. 

Auk ofangreinds útkalls vegna eignarspjalla hafði lögregla meðal annars afskipti af manni sem skaut upp skoteldum fyrir framan lögregluþjóna. Sá mun hafa verið að mótmæla fyrir framan ráðherrabústaðinn líkt og Vísir greindi frá í morgun.

Að því er segir í dagbókarfærslu lögreglu var rætt við mannin og tekin af honum vettvangsskýrsla. Hann á von á því að verða kærður fyrir brot á reglugerð um skotelda.

Útkall vegna drengja sem höfðu kveikt í rusli

Um klukkan tvö í dag barst tilkynning um eld í nýbyggingu í Kópavogi. Sökudólgarnir reyndust drengir sem höfðu kveikt bál í rusli. Þeim hafði þegar tekist að slökkva bálið þegar slökkvilið bar að. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og barnaverndar.

Að vanda var nokkuð um að ökumenn væru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá hafði lögregla þónokkur afskipti af fólki í annarlegu ástandi sökum vímuástands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×