Innlent

Mætti í annar­legu á­standi með boga og örvar í verslun

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynningin barst skömmu eftir klukkan 22 en um var að ræða verslun í hverfi 109 í Reykjavík.
Tilkynningin barst skömmu eftir klukkan 22 en um var að ræða verslun í hverfi 109 í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af manni í annarlegu ástandi sem mætti með boga og örvar í matvöruverslun í hverfi 109 í Reykjavík.

Tilkynningin barst skömmu eftir klukkan 22 en í skýrslu lögreglu segir að afskipti hafi verið höfð af manninum þar sem hald var lagt á vopnin og skýrsla rituð.

Fyrr um kvöldið hafi lögregla verið kölluð út vegna manns í annarlegu ástandi og hann verið handtekinn í verslun í miðborginni. Sá hafði verið að hóta starfsfólki og var hann vistaður í fangageymslu lögreglunnar sökum ástands síns.

Um klukkan eitt í nótt stöðvaði lögregla bíl í Garðabæ þar sem ökumaðurinn hafi viðhaft rásandi aksturslag og ítrekað vanrækt að gefa stefnuljós. Skráningarnúmer vantaði framann á bifreiðina og var hún því boðuð í skoðun.“

Fótbrotinn eftir fall af fjórhjóli

Um klukkan 22 var tilkynnt um umferðarslys í Garðabæ þar sem fjórtán ára drengur, sem var farþegi á fjórhjóli, hafði dottið af hjólinu og var hann talinn fótbrotinn. Var hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Um klukkan tvö í nótt var svo tilkynnt um eignarspjöll í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði þar sem póstkassi hafði verið sprengdur með flugeld.

Skömmu síðar var svo tilkynnt um eld í húsnæði í Kópavogi. Þar var eldurinn þó sagður minniháttar, en slökkvilið var þar komið á staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×