Skoðun

Á­byrg fjár­mála­stjórn? Kanntu annan betri?

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Sjálfstæðisflokkarnir tveir, sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, hreykja sér mjög nú í aðdraganda kosninga af ábyrgri fjármálastjórn og láta í veðri vaka að engum öðrum sé treystandi fyrir skattpeningum Hafnfirðinga. Þessari hendingu fylgir aldrei skilgreining á ábyrgri fjármálstjórn né heldur góðum raundæmum um slíka fjármálastjórn.

Bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefur verið ósjálfbær upp á tæpa tvo milljarða á ári síðustu tvö ár vegna launahækkana sem voru með öllu fyrirsjáanlegar. Þetta gat hefur verið fyllt með söluhagnaði af HS Veitum, innviðafyrirtæki á einokunarmarkaði. Fjárhagsáætlun fyrstu þriggja ára næsta kjörtímabils gerir ráð fyrir rekstrarhalla upp á amk þrjá milljarða króna ef ekki verður brugðist við vandanum.

Hin meinta ábyrga fjármálastjórn miðaði að því að hlífa Sjálfstæðisflokkunum við því að taka erfiðar rekstrarlegar ákvarðanir. Hin pólitíska ákvörðun var að selja dýrmæta eign, sem nota bene hefur hækkað arðgreiðslur sínar gríðarlega eftir að Hafnarfjarðarbær seldi hlut okkar. Söluandvirðið var notað til að breiða yfir rekstrarvandann og rugla fólk í ríminu með því að blanda saman peningalegri stöðu og rekstrarlegri stöðu. Peningalega höfum við haft það ágætt þessi tvö ár vegna einskiptis-söluhagnaðar, en nú eru þeir peningar horfnir í hítina. Þá er bágt til bjargar fyrir þá sem stunda sjónhverfingar í fjármálum. HS Veitur seljum við nefnilega ekki aftur!

Engin handbær gögn styðja fullyrðingar Sjálfstæðisflokkanna um að þeir stundi ábyrga fjármálastjórn. Þvert á móti sýna tölurnar hið gagnstæða. Raunveruleikaflótti, ákvarðanafælni og vinsældaþrá er ekki líkleg til að gera rekstur sveitarfélags sjálfbæran. Það hefur sannast hér í Hafnarfirði.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfirði. 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×