Skoðun

Kaldar kveðjur til borgar­búa

Baldur Borgþórsson skrifar

Borgarbúar og í raun þorri íbúa á höfuðborgarsvæðinu fengu heldur kaldar kveðjur nýverið.

Birt voru áform um nýja gjaldtöku á þá sem hyggjast nota bílinn sinn á komandi árum og kynntar voru hugmyndir um gjald upp á allt að kr. 675 fyrir hverja ferð sem ekið er um lykilgatnamót borgarinnar.

Stefnt er að því að gjaldtakan hefjist þegar á þessu ári.

Þetta þýðir sem dæmi:

Í hvert sinn sem íbúar aka um gatnamót Sæbrautar/Reykjanesbrautar og Vesturlandsvegar/Miklubrautar er rukkað gjald upp á allt að kr.675

Kostnaður getur því hæglega numið hálfri milljón eða meiru á ári samkvæmt þessu.

Gjaldið hefur gengið undir ýmsum nöfnum:

Vegatollur

Tafargjald

Flýtigjald

Að endingu hefur starfshópur um borgarlínu komist að niðurstöðu um að nafnið skuli vera flýtigjald.

Það hljómar jú svo jákvætt.

Raunin er reyndar sú að það er ekkert jákvætt við flýtigjald.

Flýtigjaldið er nefnilega alls ekki neitt flýti.

Það er refsiskattur og þvingunartæki sem mun kosta borgarbúa stórfé árlega.

Refsiskattur sem beint er gegn fólki og fjölskyldum sem vilja gjarnan njóta þeirra lífsgæða sem bíllinn sannarlega er og hátt í 90% borgarbúa kjósa að njóta.

Í hvaða tilgangi er verið að vega með svo grófum hætti að valfrelsi borgarbúa?

Svarið er einfalt:

Borgarlína

Talsmenn borgarlínu gera sér fulla grein fyrir að bíllinn muni áfram verða vinsælasti kostur borgarbúa.

Við það á ekki að una.

Því á að grípa til þvingunaraðgerða og þeim gefið nafnið flýtigjald.

Stór hluti borgarbúa mun því mögulega missa fjárhagslega getu til að eiga bíl og njóta þeirra lífsgæða og frelsis sem því fylgir en eiga þó eitt svar.

Öflugt svar.

Að kjósa það fólk sem skipar sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til að leiða nýjan meirihluta í borgarstjórnarkosningum þann 14.maí næstkomandi.

Fólk sem hafnar hverskyns þvingunum og forræðishyggju.

Fólk sem ætlar að leyfa borgarbúum sjálfum að velja það sem hentar þeim og þeirra fjölskyldu best hverju sinni.

Höfundur er varaborgarfulltrúi og sækist eftir 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þann 18.-19. mars næstkomandi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×