Erlent

Spá þrjátíu sentímetra hækkun sjávarmáls fyrir 2050

Samúel Karl Ólason skrifar
Flóðum mun fjölga mjög í Bandaríkjunum á næstu áratugum.
Flóðum mun fjölga mjög í Bandaríkjunum á næstu áratugum. AP/Jeff Gritchen

Vísindamenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA), Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna og annarra stofnanna, spá því að sjávarmál við austurströnd Bandaríkjanna muni hækka um 25 til þrjátíu sentímetra fyrir árið 2050. Sú hækkun er sambærileg þeirri hækkun sjávarmáls sem hefur átt sér stað á síðustu hundrað árum.

Samhliða þeirri hækkun mun þeim tilfellum þar sem sjór flæðir inn á land fara fjölgandi, með tilheyrandi skaða og tjóni og hafa umfangsmikil áhrif á lífið við strandlengju Bandaríkjanna.

Búist er við því að hættulegustu og skaðlegustu flóðunum muni fjölga fimmfalt fyrir 2050.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu áðurnefndra stofnanna sem birt var í gær. Um er að ræða uppfærslu á skýrslu frá 2017 en höfundar nýju skýrslunnar segjast hafa mun betri skilning á þeim áhrifum sem bráðnun íss og veðurfarsbreytingar hafa á hækkun sjávarmáls en þeir gerðu á árum áður.

Í skýrslunni segir að útblástur gróðurhúsalofttegunda skipti miklu máli fyrir hækkun sjávarmáls. Verði ekki dregið úr losuninni eins og hún er í dag, gæti sjávarmál hækkað um allt að 2,1 metra undir lok aldarinnar.

Hækkun sjávarmáls mun hafa mikil áhrif á byggðir í Bandaríkjunum og víðar.AP/Ashraf Khalil

Hækkun sjávarmáls er breytileg á hverju svæði fyrir sig en vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina gerðu einnig tól þar sem hægt er að sjá spár þeirra nánar. Tólið má sjá hér á vef NASA.

„Þessi skýrsla styður fyrri rannsóknir og staðfestir það sem við höfum lengi vitað. Sjávarmál hækkar ískyggilega hratt og ógnar samfélögum víða um heim,“ segir Bill Nelson, yfirmaður NASA í tilkynningu. Hann sagði nauðsynlegt að fara sem fyrst í aðgerðir til að draga úr skaðanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×