Innlent

Skilur ekki að borgin ætli að gera veður út af sak­lausum skiltum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Eigandi Hljómsýnar telur skiltin eiga rétt á sér.
Eigandi Hljómsýnar telur skiltin eiga rétt á sér. Stöð 2

Borgin ætlar að fara fram á það við verslunar­eig­endur við Ár­múla að þeir fjar­lægi skilti sem banna öðrum en við­skipta­vinum að leggja fyrir utan verslanir þeirra. Sjálfir eru þeir stein­hissa á málinu, töldu sig eiga stæðin og segja borgina vera að gera veður út af engu.

Flest fyrir­tæki í Ár­múlanum hafa komið upp skiltum fyrir utan verslanir sínar sem segja að engir nema við­skipta­vinir megi leggja þar. En þetta virðist hins vegar ekki vera alveg rétt.

Þegar lóða­mörk borgarinnar eru skoðuð kemur skýrt í ljós að bíla­stæðin á suður­hlið Ár­múlans eru utan lóða­marka og því á svo­kölluðu borgar­landi. Kjarninn vakti athygli á málinu í lok janúar.

Og þar má hver sem er leggja í hvaða til­gangi sem hann vill nema að fyrir­tæki hafi sér­stak­lega samið um annað við borgina.

Hér sést greinilega hvernig bílastæðin á suðurhlið götunnar liggja utan lóðarmarka verslananna.vísir

„Lóða­mörkin liggja hérna ein­hvers staðar við kant­steininn og verslunar­eig­endum er ekki heimilt að merkja þau sem sína eign,“ segir Atli Björn E Levy, verk­fræðingur á skrif­stofu Sam­gangna og borgar­hönnunar.

Margir verslunar­eig­endur í götunni hafa kvartað nokkuð yfir því að fólk á leið í sýna­töku á Suður­lands­brautinni leggi í stæðin fyrir utan hjá þeim.

Það virðist hins vegar í besta lagi.

Atli Björn E Levy er verkfræðingur á skrifstofu Samganga og borgarhönnunar.Stöð 2

„Jú, eftir því sem maður sér best. Ég hef sjálfur nýtt mér þessi stæði þegar ég var að fara í sýna­töku. Og þetta er ein­hver at­hugull sem hefur komið auga á þetta, að svona liggi mörkin,“ segir Atli Björn.

Verða látin fjarlægja skiltin

Lang­flestar verslanir á suður­hlið Ár­múlans hafa merkt stæðin með skiltum.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá borginni verða eig­endur látnar fjar­lægja skiltin á næstunni og ef þeir gera það ekki mun borgin sjá um það sjálf.

Þor­steinn Daníels­son, eða Steini Dan eins og hann er iðu­lega kallaður, hefur rekið verslun við Ár­múlann í 27 ár.

Hvað finnst þér um að borgin ætli að láta ykkur fjarlægja þessi skilti?

„Ég skil það ekki. Bara alls ekki því að þetta er aldrei vanda­mál. Þetta sem var um daginn var náttúru­lega vegna sýna­töku,“ segir Steini.

Þorsteinn Daníelsson, eigandi Hljómsýnar.Stöð 2

Síðan fyrir alda­mót hefur hann verið með skilti við verslun sína Hljóm­sýn sem bannar öðrum en við­skipta­vinum að leggja þar.

Borgin ætti að hans mati að spara sér ó­makið og sleppa því að fjar­lægja skiltin.

„Al­gjör ó­þarfi. Því þetta er ekkert vanda­mál, í al­vöru talað. Það hefur senni­lega ein­hver kvartað hérna út af þessu sýna­töku... en það er búið. Það eru bara lausnir. Það þarf ekkert að vera að búa til vanda­mál. Það er alveg á hreinu,“ segir Steini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×