Körfubolti

Daníel Guðni: Þetta sýnir góð karakter­s­ein­kenni fyrir fram­haldið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Daníel Guðni var ánægður með fyrsta sigur hans manna á þessu ári.
Daníel Guðni var ánægður með fyrsta sigur hans manna á þessu ári. Vísir/Bára Dröfn

„Það er gott að verja heimavöllinn og ná loksins í sigur á þessu ári,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, eftir sigurinn á Tindastól í Subway-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

„Þetta er búið að vera erfitt. Mér fannst við spila vel sóknarlega en fjórði leikhlutinn var bara erfiður og bæði lið að skora lítið þá,“ bætti Daníel við en eftir hátt skor allan leikinn gekk báðum liðum frekar illa að finna netmöskvana í lokafjórðungnum.

Grindvíkingar höfðu forystu nær allan tímann en náðu aldrei að hrista Stólana af sér. Gestirnir náðu hins vegar aldrei að taka skrefið í síðari hálfleiknum og jafna metin.

„Þeir gerðu áhlaup á okkur í þriðja leikhluta og gerðu vel í að koma okkur út úr okkar kerfi. Við gerðum svo mjög vel í að halda forskotinu.“

Grindvíkingar náðu einhvern veginn alltaf að setja stig þegar Stólarnir voru komnir hættulega nálægt og heimamenn hittu mjög vel fyrir utan þriggja stiga línuna.

„Javon Bess var frábær hjá þeim í kvöld og Taiwo Badmus gerði mjög vel í að sækja á körfuna okkar. Við náðum einhvern veginn alltaf að svara, Ólafur (Ólafsson) kom með einhverja partýþrista, í raun til að halda okkur inni í leiknum þegar við áttum erfitt með að skora.“

„Við héldum þetta út og það sýnir góð karakterseinkenni fyrir framhaldið.“

Naor Sharabani, leikstjórnandi Grindvíkinga, var sjóðandi heitur í kvöld, skoraði 27 stig og setti niður fimm þriggja stiga körfur.

„Þegar liðin eru að fara undir hindranir á hann þá er búið að gefa honum grænt ljós á að hann verður að taka skotin. Hann gerði það vel í kvöld og skaut 50% fyrir utan línuna. Ef liðin ætla að dekka hann öðruvísi þá finnum við leiðir. Hann er frábær leikstjórnandi, stýrir leiknum vel og það er plús að hann skori svona mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×