Meðal annars hafa Speznaz-sérsveitir verið fluttar til Hvíta-Rússlands, auk orrustuþota, eldflauga sem geta borið kjarnorkuvopn og loftvarnarkerfa.
Samkvæmt NATO eiga þessir hermenn að taka þátt í umfangsmiklum heræfingum með herafla Hvíta-Rússlands í þessum mánuði.
Þá hefur Reuters fréttaveitan eftir varnarmálaráðherra Úkraínu að Rússar hafi sent um 115 þúsund hermenn að landamærum landsins. Mikil spenna er í Austur-Evrópu um þessar mundir sem að má að miklu leyti rekja til áðurnefndra hermanna við landamæri Úkraínu en óttast er að Rússar gætu gert aðra innrás í landið.
Rússar hafa krafist þess að tlantshafsbandalagið meini Úkraínu aðkomu að hernaðarbandalaginu í framtíðinni og vísi ríkjum Austur-Evrópu úr bandalaginu en þeim kröfum hefur verið hafnað alfarið.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að um tvö þúsund hermenn verði sendir frá Fort Bragg í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum til herstöðva í Póllandi og Þýskalandi og þá verði um þúsund bandarískir hermenn sem nú þegar eru í Þýskalandi sendir til Rúmeníu.
Með því vildi Biden senda skilaboð um samstöðu í NATO en ráðamenn í Rússlandi segja ákvörðunina skaðlega og að hún muni leiða til meiri spennu.
Sjá einnig: Segja fjölgunina í herliði Bandaríkjanna vera „skaðlega“
Bandaríkjamenn hafa einnig sett um 8.500 hermenn í viðbragðsstöðu fyrir mögulega flutninga til Evrópu. Fyrir eru um 75 til 80 þúsund bandarískir hermenn með fasta viðveru í Evrópu.