Erlent

Semaglutide reyndist ekki hægja á fram­gangi Alzheimer

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Prófanir standa nú yfir á um það bil 130 lyfjum gegn Alzheimer.
Prófanir standa nú yfir á um það bil 130 lyfjum gegn Alzheimer. Getty

Lyfjarisinn Novo Nordisk hefur greint frá því að semaglutide, virka efnið í þyngdarstjórnunarlyfinu Wegovy, hægi ekki á framgang Alzheimer sjúkdómsins, eins og vonir höfðu staðið til.

Samkvæmt niðurstöðum tveggja rannsókna sem náðu til samtals 3.800 einstaklinga var engin merkjanlegur munur á áhrifum GLP-1 lyfsins og lyfleysu á framgangi heilabilunar. Niðurstöðurnar verða kynntar á ráðtefnu í næsta mánuði.

Þátttakendurnir voru allir á aldrinum 55 til 85 ára og höfðu greinst með mild heilglöp eða milda heilabilun. Lyfjameðferð með semaglutide leiddi til minni merkiefna tengdum Alzheimer en hægði ekki á framgangi sjúkdómsins.

Svokölluð GLP-1 þyngdarstjórnunarlyf virðast hafa ýmis góð áhrif á heilsu umfram að hjálpa fólki sem glímir við sykursýki eða offitu.

BBC hefur eftir Fionu Carragher, yfirmanni rannsókna hjá Alzheimer´s Society, að jafnvel þótt þau hafi ekki reynst áhrifarík gegn heilaglöpum sé mikilvægt að ráðist hafi verið í að kanna möguleikann.

Að sögn Carragher eru um það bil 130 lyf gegn Alzheimer í prófun, þar af 30 á seinni stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×