Fótbolti

Fyrirliði kvennaliðsins hætti því karlaliðið samdi við nauðgara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Goodwillie fylgist með leik Raith Rovers og and Queen of the South í skosku B-deildinni í gær.
David Goodwillie fylgist með leik Raith Rovers og and Queen of the South í skosku B-deildinni í gær.

Ákvörðun forráðamanna skoska fótboltaliðsins Raith Rovers að semja við David Goodwillie, dæmdan nauðgara, hefur vakið hörð viðbrögð.

Goodwillie var ákærður fyrir nauðgun ásamt fyrrverandi samherja sínum, David Robertson, og fundinn sekur um að vera nauðgari í einkamáli. Þeir greiddu þolandanum hundrað þúsund pund í skaðabætur. Goodwillie fór þó ekki fyrir rétt því ekki þóttu næg sönnunargögn fyrir hendi.

Fyrirliði kvennaliðs Raith Rovers, Tyler Rattray, hætti hjá félaginu í mótmælaskyni vegna þess að það samdi við Goodwillie. 

„Eftir tíu löng ár hjá Raith er ég miður mín að hætta núna því þeir sömdu við einhvern eins og þennan mann og ég vil ekkert með það hafa,“ skrifaði Rattray á Twitter.

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, og Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Raith Rovers fyrir að semja við Goodwillie.

Það gerði skoski glæpasagnahöfundurinn Val McDermid einnig. Hún gekk þó enn lengra, sagðist vera hætt að styðja Raith Rovers og hætti að auglýsa á búningum liðsins. McDermid hefur verið aðalstyrktaraðili Raith Rovers undanfarin ár.

Þá hafa tengliður Raith Rovers við stuðningsmenn liðsins og vallarþulur þess einnig hætt vegna kaupanna á Goodwillie.

Raith Rovers ver ákvörðunina og segist hafa samið við Goodwillie vegna getu hans inni á vellinum og hann muni hjálpa liðinu í baráttunni um að komast upp í skosku úrvalsdeildina.

Goodwillie, sem er 32 ára, kom til Raith Rovers frá Clyde þar sem hann skoraði grimmt. Hann lék þrjá A-landsleiki fyrir Skotland á árunum 2010-11 og skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×