Erlent

Varð ekki við beiðni Andrésar prins um frávísun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Málið gegn Andrési prins heldur áfram.
Málið gegn Andrési prins heldur áfram. Getty/Kitwood

Dómari í máli Virginiu Giuffre gegn Andrési prins hefur hafnað því að málinu verði vísað frá dómstólum í Bandaríkjunum.

Lögmenn Andrésar höfðu meðal annars haldið því fram að samkomulag sem Epstein og Giuffre gerðu með sér þar sem Giuffre samþykkti að falla frá málaferlum gegn Epstein vegna kynferðisofbeldis og kynlífsþrælkunar sem hún sakaði hann um að hafa beitt sig.

Samkomulagið náði einnig til annarra mögulega sakborninga í málinu. Vildu lögmenn Andrésar meina að Andrés væri þar með talinn, hann nyti því verndar gegn lögsókn af hálfu Giuffre.

Giuffre hefur kært Andrés fyrir að hafa brotið gegn sér kynferðislega þrisvar sinnum á meðan hún var enn undir lögaldri. Prinsinn hefur staðfastlega neitað ásökununum og segist ekki muna eftir því að hafa verið kynntur fyrir Giuffre, þrátt fyrir að mynd sé til af þeim saman.

Lewis Kaplan, dómari í málinu, hafnaði því í dag að verða við óskum lögmanna um að vísa málinu frá. Sagði hann að meiningin á bak við umrætt samkomulag væri ekki skýr.

Lögmenn beggja aðila hefðu sett fram trúverðugar skýringar á því hvað samkomulagið fæli í sér og útkljá þyrfti það við aðalmeðferð málsins, sem talið er líklegt að fari fram í haust.


Tengdar fréttir

Dómarinn á báðum áttum vegna sam­komu­lagsins við Ep­stein

Dómari í máli Virginiu Giuffre gegn Andrési prins virðist á báðum áttum þegar kemur að tilraun lögmanna Andrésar til að nýta sér gamalt samkomulag Giuffre við Jeffrey Epstein til að fá málinu vísað frá dómstólum. Dómarinn er þó sagður hafa virst efins um þessa túlkun lögmanna prinsins.

Lögmenn Andrésar prins krefjast frávísunar

Andrés prins, sonur Elísabetar Englandsdrottningar, krefst frávísunar í kynferðisbrotamáli. Prinsinn er sakaður um að hafa misnotað hina 38 ára gömlu Virginu Giuffre þegar hún var táningur. Prinsinn hefur ávallt neitað sök í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×