Neytendur

Húsfélag fær 36 milljónir vegna galla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lundur 2-6 í Kópavogi, deilan snerist um frágang á þakplötu á bílastæðahúsi sem sjá má á myndinni.
Lundur 2-6 í Kópavogi, deilan snerist um frágang á þakplötu á bílastæðahúsi sem sjá má á myndinni. Já.is

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hefur verið dæmt til að greiða húsfélaginu Lundi 2-6 í Kópavogi 36 milljónir vegna galla í þakplötu á bílastæðahúsi sem fylgdi íbúðum í húsunum.

Deilan snerist aðallega um frágang á þakplötu á sameiginlegri bílastæðageymslu sem fylgdi íbúðunum í Lundi 2-6, fjöleignarhúsi í þremur stigahúsum með 59 íbúðum. Íbúðirnar voru afhentar á árinum 2014 til 2015.

Þremur árum síðar gerði húsfélagið athugasemdir við ýmiskonar frágang, þar á meðal að frágangur yfirborðs bílaplans væri ekki í samræmi við samþykkta verklýsingu, teikningar og eignaskiptayfirlýsingu.

Loftplötur í bílakjallara sýndu merki um rakaskemmdir frá lekri þakplötu og að regnvatn og snjóbráð rynnu af gangstéttum út á bílaplanið sem ylli hálkumyndun í frosti.

Matsmenn töldu frágang ekki forsvaranlegan miðað við aðstæður

Byggingarfélagið hafnaði því að frágangi á þakplötu og gangstéttum væri ábótavant. Gerðar voru nokkrar lagfæringar á þakplötunni vegna leka sem Byggingarfélagið taldi vera til komna vegna borunar við niðurlögn á kantsteinum.

Dómkvaddir matsmenn voru kallaðir til í deilunni og komust þeir að þeirri niðurstöðu að skil Bygginarfélagsins á plötunni hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar, frágangur hafi hvorki verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar né forsvaranlegur miðað við aðstæður.

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjaness.Vísir/VIlhelm

Þá væri útfærsla á gangstéttum við bílaplan hvorki forsvaranleg né uppfyllti hún ákvæði í byggingarreglugerð. Var það niðurstaða matsmanna að heildarkostnaður við úrbætur þeirra atriða sem lagt var fyrir matsmenn að meta væri 42,25 milljónir króna.

Reynt var að ná sáttum í málinu, án árangurs og höfðaði því húsfélagið mál á hendur Byggingarfélaginu. Byggði húsfélagið meðal annars á því að Byggingafélagið væri tryggt fyrir annmörkum sem komi í ljós innan fimm ára frá lokaúttekt bygginganna, sem í þessu tilviki fór fram árið 2015.

Fóru í vettvangsferð

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að aðilar málsins hafi farið í vettvangsferð í bílastæðahúsið ásamt dómurum málsins til þess að kanna aðstæður. 

Þar kemur einnig fram að Byggingafélaginu hafi ekki tekist að hnekkja því mati dómkvaddra matsmanna að frágangur á þakplötunni hafi ekki verið í samræmi við byggingarlýsingu. Var það mat þeirra að eina leiðin til að bæta úr lekanum sem deilt var um bæri sú að klæða plötuna með brúarpappír og malbika yfir, eins og upphafleg hönnun gerði ráð fyrir.

Var fallist á það með matsmönnum að kostnaður við þær úrbætur næmi 39,8 milljónum, en 35,8 milljónir að frádregnum 100 prósent endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað. Þó var krafa húsfélagsins vegna galla á gangstéttum talin fyrnd.

Var Byggingarfélagið því dæmt til að greiða húsfélaginu 35,8 milljónir, auk tæpra fimm milljóna króna í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×