Skoðun

Lokum opnum kælum strax!

Samúel Karl Ólason skrifar

Opnir kælar eru, í stuttu máli sagt, ömurlegir og þjóna engum tilgangi. Þeir eru óskilvirkir, óumhverfisvænir og eiginlega bara óþolandi. Þeir þjóna ekki einu sinni þeirra helsta tilgangi, að kæla. Ég man ekki til þess að hafa nokkurn tímann gengið inn í verslun eða á veitingastað og fagnað því að geta keypt þar drykki úr opnum kæli.

Þessir kælar, ef svo má kalla, eru ætlaðir til að auðvelda kaupendum aðgengi að vöru. Eru þau þægindi og tímasparnaður sem felst í því að sleppa við að opna dyr þess virði að maður fái aldrei neitt kalt að drekka?

Ég segi nei!

Þar að auki er lítill sem enginn tímasparnaður sem felst í opnum kælum þar sem fólk ver iðulega dágóðum tíma í að sækja sér drykkjarföng í þá.

Maður teygir sig inn í kælinn og reynir að taka aftast úr honum, því þar finnur maður oftar en ekki kaldasta drykkinn, ef svo má segja því yfirleitt er aldrei neitt kalt í þessum kælum. Minna volgt, er rétta lýsingin.

Ég veit fyrir víst að ég er ekki einn þessarar skoðunar, því í hvert einasta sinn sem maður neyðist til að fá sér eitthvað úr opnum kæli, er auðséð að flestir aðrir reyna að næla í öftustu drykkina.

Lengi hefur legið fyrir að opnir kælar noti meiri orku en lokaðir. Munurinn er allt að 25 til þrjátíu prósent. Það verður seint sagt að sóun af þessu tagi sé réttlætanleg.

Mér finnst ég og tugir þúsunda annarra Íslendinga (geri ég ráð fyrir) ekki vera að biðja um mikið. Við erum bara að biðja um það að opnum kælum verði fargað á öskuhaugum sögunnar.

Höfundur er/verður kannski forseti samtakanna Lokum opnum kælum strax eða LOKS. Samtökin hafa ekki verið stofnuð enn og verða það eflaust ekki. Hugmyndin er samt ágæt.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×