Í þættinum Um land allt á Stöð 2 er rætt við Kristínu Lilju en hún starfar sem heilaskurðlæknir í Svíþjóð. Eskfirðingurinn sem hún kynntist er Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

„Ég er búin að vera í Svíþjóð, bæði í námi og vinnu, þannig að við Jenni höfum verið að „fljúgast á“ síðan 2011, getur maður sagt.“
-En hafðir þú þá aldrei komið á Eskifjörð áður?
„Kannski einu sinni keyrt framhjá,“ svarar hún.
-Það er sem sagt hægt að eiga heimili á Eskifirði en starfa í Svíþjóð?
„Já, það er hægt. Allt er hægt með vilja. Það er svo sem langt ferðalag. Ég starfa í Gautaborg. Þannig að það er Gautaborg – Kaupmannahöfn – Keflavík – Reykjavík – Egilsstaðir – Eskifjörður. Ég næ þessu nú yfirleitt ekki á einum degi, þarf yfirleitt að gista á leiðinni. En það er þess virði.“

-Hvað var það sem þú sást við Eskifjörð?
„Ég náttúrlega sá ekkert kannski við Eskifjörð, ég sá náttúrlega við Jens. Svo var það Eskifjörðurinn sem fylgdi honum,“ svarar Kristín hlæjandi.
„Og ekki bara Eskifjörð. Bara Austfirðirnir. Kom hérna og sá öll fjöllin og allt og ég hugsaði: Ég ætla að mergsjúga allt út úr þessum fjórðungi áður en sambandið fer í vaskinn. Ganga hérna á fjöll og veiða hreindýr, fara á kajak og synda í sjónum og gera allt sem hægt er að gera. En svo er ég bara ennþá hérna, - því að Jenni er æði.“
Hér má sjá sex mínútna myndskeið úr þættinum:
Í næsta þætti Um land allt er fjallað um Alla ríka og arfleifð hans á Eskifirði. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: