Fótbolti

Saka Íran um að spila með karl­mann í markinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Zohreh Koudaei stóð í marki Íran gegn Jórdaníu. 
Zohreh Koudaei stóð í marki Íran gegn Jórdaníu.  Samsett/Marca

Jórdanía hefur ásakað nágrannaþjóð sína Íran um að stilla upp karlmanni í marki sínu er þjóðirnar mættust í A-landsleik kvenna í knattspyrnu á dögunum. Knattspyrnusamband Jórdaníu vill staðfestingu þess efnis að markvörður Íran sé kvenkyns.

Þjóðirnar mættust í umspili um sæti á Asíumótinu þann 25. september síðastliðinn. Þann 5. nóvember lagði knattspyrnusamband Jórdaníu fram kæru. Vill sambandið að knattspyrnusamband Asíu, AFC, rannsaki málið.

Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Íran hafði betur og hin 32 ára gamla Zohreh Koudaei varði tvær vítaspyrnur í marki Íran. Forseti knattspyrnusambands Jórdaníu vill sannanir þess efnis að Koudaei sé kona.

Maryam Irandoost, þjálfari Íran, hefur vísað ásökunum til föðurhúsanna og segir þetta vera leið Jórdaníu til þess að beina athygli frá súru tapi liðsins. 

Ekki er enn komin niðurstaða í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×