Íslenski boltinn

Zamora­no í Sel­foss

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gonzalo Zamorano í leik með ÍA er hann lék þar.
Gonzalo Zamorano í leik með ÍA er hann lék þar. Vísir/Daníel

Hinn 26 ára gamli Gonzalo Zamorano er genginn í raðir Selfyssinga og mun leika með liðinu í Lengjudeild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð. Zamorano lék síðast með ÍBV hér á landi og heldur sig við Suðurlandið.

Knattspyrnudeild Selfyssinga sendi frá sér tilkynningu þess efnis í dag að spænski framherjinn væri genginn í raðir félagsins. Hann semur til teggja ára.

Gonzalo verður þriðji erlendi framherjinn í herbúðum Selfyssinga en Gary Martin og Hrvoje Tokić leiddu línuna á síðustu leiktíð. Liðið var nýliði í deildinni á síðustu leiktíð og endaði í 8. sæti, svo virðist sem gera eigi betur á næsta ári.

„Ég er hrikalega ánægður með það að vera kominn á Selfoss. Ég er búinn að tala við fólk í kringum mig sem þekkir klúbbinn vel og það töluðu allir vel um staðinn sem og liðið. Aðstæður á Selfossi eru frábærar og ég vona að ég nái að hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum,“ sagði Gonzalo við undirskriftina.

Gonzalo kom fyrst hingað til lands sumarið 2017 og lék þá með Huginn í 2. deild karla. Þar skoraði hann 16 mörk í 22 leikjum. Árið eftir lék hann með Víking Ólafsvík í næstefstu deild og svo ÍA sumarið 2019.

Eftir það gekk hann aftur í raðir Víkings Ólafsvíkur áður en hann samdi við ÍBV fyrir síðasta tímabil. Þar skoraði hann þrjú mörk í 10 leikjum í deild.

Alls hefur spænski framherjinn skorað 58 mörk í 121 leik í deild og bikar hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×