Innlent

Börn þurft að leita á bráða­mót­töku eftir neyslu orku­drykkja

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ásta Heiðrún Elísabet Pétursdóttir, formaður áhættumatsnefndar og sviðstjóri lýðheilsu og matvælaöryggis hjá Matvís.
Ásta Heiðrún Elísabet Pétursdóttir, formaður áhættumatsnefndar og sviðstjóri lýðheilsu og matvælaöryggis hjá Matvís. Vísir/Egill

Börn hafa þurft að leita á bráðamóttöku eftir neyslu orkudrykkja en íslensk börn drekka meira af þeim en jafnaldrar annars staðar. Sérfræðingur í eiturefnafræði segir langtímaneyslu ungmenna á orkudrykkjum áhyggjuefni þar sem efnin í þeim hækka meðal annars blóðþrýsting og skaða æðakerfið.

Orkudrykkir sem innihalda koffín njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi meðal annars hjá ungmennum. Matvælastofnun fékk áhættumatsnefnd á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru til að rannsaka hvort neysla orkudrykkja, sem innihalda koffín, hafi neikvæðáhrif á heilsu ungmenna í framhaldsskólum. Nefndin skoðaði meðal annars hversu mikil neyslan er. Niðurstöðurnar sýna að neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum er töluvert meiri en sést hefur í erlendum rannsóknum.

„Framhaldsskólanemar eru að neyta orkudrykkja í umtalsverðu magni. Það er yfir helmingur þeirra drekkur orkudrykki og tíu tuttugu prósent þeirra eru að drekka þá daglega eða oftar,“ segir Ásta Heiðrún Elísabet Pétursdóttir, formaður áhættumatsnefndar og sviðstjóri lýðheilsu og matvælaöryggis hjá Matvís.

Ásta segir rannsóknina sýna að orkudrykkir hafi neikvæðáhrif á svefn og andlegan líðan ungmennanna. Matvælastofnun telur mikla neyslu gefa tilefni til að takmarka aðgengi að drykkjunum. „Krakkarnir voru að segja að þau voru að fá þessa drykki gefins. Fjörutíu til sjötíu prósent sögðu að þau voru að fá drykki gefins í tengslum við íþróttir og hópastarf á meðan það voru tíu prósent framhaldsskólanema,“ segir Ásta.

Undanfarin ár hefur Eitrunarmiðstöð af og til borist símtöl vegna eituráhrifa af orkudrykkjum. Þá hafa komið upp nokkur tilfelli þar sem börn hafa leitaðá bráðamóttöku Landspítalans eða á Barnaspítalann eftir neyslu orkudrykkja. „Það eru yfirleitt svona örvandi áhrif. Þau eru kannski með hraðan hjartslátt og svona kvíða sem fylgir því að hafa svona mikið af þessum efnum í blóðinu,“ segir Curtis Snook, sérfræðingur í bráðalækningum og í klínískri eiturefnafræði á Landspítalanum.

Curtis Snook, sérfræðingur í bráðalækningum og í klínískri eiturefnafræði á Landspítalanum.Vísir/Egill

Curtis segist langtímaáhrifin af neyslu orkudrykkja áhyggjuefni. „Þá ert þú að hækka blóðþrýstinginn á hverjum degi og púlsinn þá er í raun og veru kemur skaði í æðakerfinu fljótara í þeim einstaklingum sem gera það,“ segir Curtis.

Þannig getur hækkaður blóðþrýstingur sem fylgi mikilli notkun um langa hríð valdið skaða hjá ungmennum. „Það eru ýmis vandræði sem fylgir því að vera með háan þrýsting og við vitum mikið um það skilurðu. Svo börnin myndu kannski ekki strax lenda í vandræðum en þegar þau eru eldri þá eru þau búin að skaða æðakerfið og þú ferð ekki til baka. Þú munt ekki breyta því,“ segir Curtis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×