Erlent

Glæpabaróninn Otoniel verður framseldur til Bandaríkjanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Otoniel er leiðtogi Clan del Golfo, eða Flóagengisins. Það er talið telja um 1.800 meðlimi, sem hafa meðal annars verið handteknir í Argentínu, Brasilíu, Hondúras, Perú og á Spáni. Gengið ræður yfir fjölda smyglleiða frá Kólumbíu til Bandaríkjanna.
Otoniel er leiðtogi Clan del Golfo, eða Flóagengisins. Það er talið telja um 1.800 meðlimi, sem hafa meðal annars verið handteknir í Argentínu, Brasilíu, Hondúras, Perú og á Spáni. Gengið ræður yfir fjölda smyglleiða frá Kólumbíu til Bandaríkjanna. AP

Eiturlyfjabaróninn Dario Antonio Úsuga, kallaður Otoniel, verður framseldur til Bandaríkjanna. Otoniel var handsamaður á laugardag í umfangsmikilli aðgerð lögreglunnar og hersins í Kólumbíu.

Otoniel er leiðtogi stærsta glæpagengis Kólumbíu og hefur um árabil verið á lista bandaríska eiturlyfjaeftirlitsins yfir eftirlýsta glæpamenn. Bandarísk yfirvöld höfðu sett 5 milljónir bandaríkjadala til höfuðs glæpabaróninum en Otoniel hefur meðal annars verið sakaður um að flytja 73 rúmmetra af kókaíni til Bandaríkjanna á árunum 2003 til 2014. 

Varnarmálaráðherra Kólumbíu, Diego Molano, sagði í samtali við dagblaðið El Tiempo að næsta skref væri að koma til móts við framsalskröfu Bandaríkjamanna. Otoniel hefur verið fluttur á herstöð í höfuðborginni Bogotá og mun dvelja þar þar til hann verður framseldur.

Forsetinn Iván Duque fagnaði handtöku Otoniel í sérstöku sjónvarpsávarpi.

„Þetta er stærsta högg sem fíkniefnasmygl í landinu hefur orðið fyrir á þessari öld,“ sagði hann. „Það er aðeins samanburðarhæft við fall Pablo Escobar á tíunda áratug síðustu aldar.“

Otoniel var handsamaður á felustað sínum í Antioquia-héraði í norðvesturhluta Kólumbíu, nálægt landamærunum að Panama. 500 hermenn tóku þátt og 22 þyrlur voru notaðar í aðgerðinni. Einn lögreglumaður lést.

Glæpabaróninn hafði farið huldu höfði um langt skeið og flutt sig á milli staða á strjálbýlum svæðum landsins til að forðast handtöku. Þá notaði hann ekki síma, heldur reiddi sig á aðstoðarmenn sem fluttu skrifleg skilaboð til þeirra sem hann þurfti að hafa samband við.

Að sögn yfirvalda tókst að hafa uppi á Otoniel með notkun gervihnatta. Þau fengu aðstoð bæði frá bandarískum og breskum stofnunum. Duque sagði um að ræða umfangsmestu aðgerðir sem herinn hefði ráðist í í frumskógum landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×