Skoðun

Stór­auka þarf vöktun vegna skriðu­falla

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir skrifa

Enn minnir náttúran á sig hér í Norðausturkjördæmi eftir miklar rigningar þar sem bæði aur og vatnsflóð hafa skilið eftir sig mikla eyðileggingu. Fólk þarf að rýma hús sín - sumir sem betur fer í stuttan tíma, en aðrir vita ekki hvenær þeir geta snúið heim. Fordæmalaust ástand í Köldukinn þar sem gríðarlega mikil uppbygging er framundan. Ekki höfum við heldur gleymt atburðunum á Seyðisfirði í lok síðasta árs auk þess sem skriður hafa ógnað bænum í liðinni viku og munu gera áfram. Mikil flóð bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði með tilheyrandi skemmdum og dæmin eru sannarlega fleiri.

Það er mikilvægt að Náttúruhamfaratrygging Íslands og aðrar þær tryggingar sem eiga í hlut taki vel utan um það tjón sem hefur orðið þannig að fólk, sem það getur, geti snúið heim aftur og hafið uppbyggingu og endurbætur.

Skriðuföll og flóð valda ekki bara veraldlegu tjóni heldur líka andlegu og við þurfum að taka utan um fólk sem lendir í slíkum aðstæðum. Við höfum séð að heilu samfélögin hjálpast að þegar slík áföll verða en hið opinbera þarf líka að vera þess bært að geta boðið uppá sálræna hjálp sem oft er ekki minna atriðið en hin veraldlega.

En við þurfum líka að sjá þessa atburði fyrir og þar eigum við því miður langt í land.

Sérfræðingar virðast vera á einu máli um að tíðni stórra skriðufalla sé að aukast. Hvort sem það eru veðurfræðingar, sérfræðingar á sviði loftslagsmála eða jarðfræðingar. Við þurfum að hlusta og taka þetta alvarlega. Bent hefur verið á að það þurfi að kortleggja hættusvæði betur. Fleiri þéttbýlisstaðir, sveitabæir og sumarhúsabyggðir eru undir og því miður er staðan þannig í dag að örfáir staðir eru vaktaðir. Þetta er mál sem þarf að vera í forgangi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður VG, setti aukinn kraft í rannsóknir á þessu sviði á síðasta kjörtímabili en eins og hann hefur sjálfur sagt, það þarf meira til. Sú ríkisstjórn sem senn tekur við þarf að setja þetta mál í forgang og við sem kjörnir fulltrúar þurfum að standa saman og fylgja því fast eftir. Því það er sannarlega mikið í húfi.

Höfundar eru þingmenn Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi. 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×