Skoðun

Sam­fylkingin í sókn

Logi Einarsson skrifar

Jafnaðarmenn finna mikinn meðbyr víða um þessar mundir. Eftir norsku þingkosningarnar í síðustu viku munu jafnaðarmenn leiða ríkisstjórnir allra hinna Norðurlandanna. Það stefnir í stórsigur í Þýskalandi næsta sunnudag. Og Ísland getur bæst í hópinn.

Þennan meðbyr finnum við í Samfylkingunni líka; markmið okkar um að mynda aðra og betri ríkisstjórn virðist í sjónmáli samkvæmt síðustu könnunum.

Almenningur getur ekki búið við sömu ríkisstjórn fjögur ár til viðbótar: Áframhaldandi sérhagsmunagæslu, veiðigjöld sem eru lægri en tóbaksgjöld og skattastefnu sem hyglar ríkasta fólksins í samfélaginu. Stefnuleysi og vanfjármögnun í heilbrigðiskerfinu og metnaðarleysi í loftslagsmálum. Þúsundir barnafjölskyldna eiga ekki að þurfa að vera í basli um hver einustu mánaðamót og öryrkjar og stórir hópar eldra fólks eiga ekki að búa áfram við sömu sultarkjörin næstu fjögur árin. Við eigum ekki að sætta okkur við að þjóðarviljinn sé áfram virtur að vettugi í stórum málum og harðneskja sýnd í málefnum fólks á flótta. Nú er komið að almenningi.

Dauðafæri til að breyta

Góðu fréttirnar eru að við erum í dauðafæri að breyta þessu öllu.

Við getum kosið aðgerðir fyrir venjulegt fólk í daglegu basli við að veita börnum sínum betra líf. Kosið að hækka barnabætur og lækka skattbyrði barnafólks, öryrkja og eldra fólks með því að klípa örlítið af allra auðugasta fólkinu í samfélaginu. Kosið að koma böndum á brjálaðan húsnæðismarkað svo allir geti eignast öruggt heimili. Kosið að stytta biðlista og aðrar umbætur í heilbrigðismálum. Kosið alvöru aðgerðir í loftslagsmálum.

Allt þetta er hægt. Ef þú kýst.

Það skiptir máli með hverjum þú stjórnar

En þá verður þú að leggjast á árar með okkur og kjósa Samfylkinguna. Þá skiptir mestu máli fyrir hverja er stjórnað. Og þá skiptir máli með hverjum er stjórnað.

Það er sögulegt tækifæri til að mynda trausta og öfluga ríkisstjórn, án Sjálfstæðisflokksins, sem setur fjölskyldur í forgang og ræðst í alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. Höfnum fjórum árum til viðbótar af aðgerðaleysi og kyrrstöðu.

Kjósum betra líf fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir.

Kjósum Samfylkinguna – jafnaðarmannaflokk Íslands.

Höfundur er formaður Samfyllkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×