Skoðun

Tvöfalt kerfi í tvöföldu kerfi

Ómar Torfason skrifar

Það er landanum sennilega löngu ljóst að heilbrigðismálin eru með erfiðari málaflokkum, ekki síst með hækkandi meðalaldri okkar. Krafan um sparnað verður óhjákvæmilega meira krefjandi. Það er því mikilvægt að þeir sem stýra málum séu raunveruleikatengdir, þar sem ekki fer endilega saman krafan um þjónustu og útlagður kostnaður.

Nú víkur svo við að núverandi heilbrigðisráðherra, væntanlega með stuðningi og mögulega að áeggjan þess sem stýrir Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), stefnir í sparnað með því að útiloka nýútskrifaða einstaklinga frá aðkomu að Sjúkratryggingum Íslands á þeim forsendum að þeir séu nýútskrifaðir, þ.e. miðað við tvö s.l. ár. Menntun þeirra er fullgild og Embætti landlæknis hefur gefið þeim grænt ljós, en grunnkerfið neitar eigi að síður og það án þess að fyrir liggi haldbær rök. Skjólstæðingar verða því að greiða þar fullt gjald fyrir þjónustuna án aðkomu SÍ. Þar með er komið tvöfalt kerfi.

Á sama tíma er annað ferli í gangi sem mun mynda víðtækara tvöfalt kerfi, sem liggur í því að núverandi ráðherra heilbrigðismála, með fullum stuðningi forsvarsmanna SÍ, stefnir í alþjóðlegt útboð á sjúkraþjálfun þar sem sumar stofur, þ.e. hæstbjóðendur í undirboði, fá meðferðarkvóta en aðrar ekki. Þeir sem eitthvað hafa aflögu milli handanna geta þá leitað til stofa utan kerfisins og fengið þjónustu svo gott sem strax meðan hinir, sem minna mega sín fjárhagslega, verða að koma sér í röðina hjá handhöfum aðgengisheimildar að SÍ. Þannig verður hver og einn í borg og bý með verðmiða á bakinu líkt og fiskurinn í sjónum. Auk þess lýtur þessi reglugerð erfðafjárlögum og mun ef að líkum lætur snúast upp í það framsalsspillingardæmi sem ríkir í sjávarútveginum.

Það er mikilvægt að heilbrigð skynsemi fái að ríkja í landinu, og sem betur fer gætir hennar víða. Alþingi Íslendinga getur á engan hátt talið sig yfir skynsemiskröfuna hafið, en hér virðist nokkur brestur á. Það er vert að minna hæstvirta ráðamenn á, að kosningar eru á næsta leiti. Það verður aldrei nógsamlega þakkað fyrir lýðræðið.

Höfundur er sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×