Íslenski boltinn

Eld­skírn í bak­verði í sex stiga falls­lag: „Var bara frá­bær í þessum leik“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óli Valur í baráttunni við Ægi Jarl Jónasson, leikmann KR.
Óli Valur í baráttunni við Ægi Jarl Jónasson, leikmann KR. Vísir/Hulda Margrét

Hinn ungi og efnilegi Óli Valur Ómarsson lék í stöðu hægri bakvarðar í fallslag Stjörnunnar og Fylkis í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu. Óli Valur, sem leikur vanalega mun framar á vellinum, stóð sig með sóma en farið var yfir frammistöðu hans í Stúkunni að leik loknum.

„Mér fannst hann ógnandi, vildi fá boltann og fara á Óla Val Ómarsson í hægri bakvarðarstöðunni. Hann var að reyna og manni fannst gusta um hann,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, um innkomu Djair Terraii Carl Parfitt-Williams í Fylkisliðið í gær.

Óli Valur hafði ekki átt í miklum vandræðum framan af leik en Djair var erfiður viðureignar. Það dugði þó ekki til þar sem Stjarnan vann 2-0 sigur á endanum.

„Hér sjáum við einmitt Óla Val sem spilaði í hægri bakverði og það var talað um þetta fyrir leikinn, ungur strákur kominn í hægri bakvörðinn,“ bætti Kjartan Atli við áður en hann spurði Mána Pétursson, sérfræðing, hvernig honum hefði fundist Óli Valur standa sig.

„Óli Valur var bara frábær í þessum leik. Það kemur allt öðruvísi ógn frá honum fram á við heldur en frá Heiðari (Ægissyni, sem spilar venjulega í bakverði Stjörnunnar). Hann var eini sinni tekinn í leiknum, Djair tók hann og skildi hann eftir. Annars réð hann bara við allt sem þeir sendu á hann. Einu áhyggjurnar sem ég haf honum í varnarleik er þegar menn ákveða að setja stóran mann á móti honum og skrúfa boltann þangað. Ég hef ekki áhyggjur af honum einn á einn eða að einhver hlaupi framhjá honum,“ sagði Máni um frammistöðu Óla Vals í leiknum.

„Við tókum meira eftir honum þegar Djair kom inn á. Daði (Ólafsson) var þarna úti vinstra megin fyrstu 60 mínútur og hann er ekki leikmaður sem fer mikið á varnarmenn, einn á einn. Djair var að reyna, það reyndi því meira á Óla Val í þessum stöðum. Leysti það vel en maður sá líka að það voru merki á honum að hann væri nýr í þessari stöðu og pínulítið tæpur,“ bætti Atli Viðar Björnsson við að endingu.

Stjarnan vann eins og áður sagði gríðar mikilvægan 2-0 sigur og lyfti sér aðeins frá fallsvæðinu. Nú munar fimm stigum á Stjörnunni og HK sem situr í 11. sæti Pepsi Max deildarinnar.

Klippa: Pepsi Max Stúkan: Umræða um nýjan hægri bakvörð Stjörnunnar

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×