Skoðun

Náungi sem vill á þing

Jón Steindór Valdimarsson skrifar

Hann er 63 ára gamall Grafarvogsbúi til síðustu 30 ára. Fæddur og uppalinn Akureyringur.

Um manninn

Hann hefur búið í Reykjavíkurkjördæmi norður í 43 ár, fyrst í Álftamýri, þá í Nökkvavogi, Logafold og nú síðast í Funafold. Þá vill svo skemmtilega til að allir vinnustaðir hans hafa verið í Reykjavíkurkjördæmi norður! : fjármálaráðuneytið, Vinnumálasambandið, Félag íslenskra iðnrekenda, Samtök iðnaðarins, TravAble, Evris, Nordberg innovation og Alþingi.

Hann hefur alið upp þrjár dætur í kjördæminu ásamt eiginkonu sinni.

Tengsl hans við kjördæmið eru því afar sterk og verður náunginn enda í framboði fyrir Viðreisn í Reykjavíkur kjördæmi norður í komandi Alþingiskosningum.

Það er rétt til getið hjá þér að maðurinn er - Jón Steindór Valdimarsson alþingismaður.

Jón Steindór segir

Margar ástæður eru fyrir því að ég tók virkan þátt í stofnun Viðreisnar og varð síðar alþingismaður árið 2016 og aftur árið 2017.

  • Ég er einlægur stuðningsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið og njóti allra þeirra hagsbóta sem það færir almenningi og atvinnulífi.
  • Ég tel að fjölbreytt atvinnulíf sem byggir í auknum mæli á nýsköpun og tækni verði undirstaða hugvitsdrifins útflutnings sem verði undirstaða hagvaxtar og aukins stöðugleika að því gefnu að atvinnulífið fái notið evrópsks samstarfs og þeim kostum sem fylgja upptöku evru.
  • Ég tel að jafnrétti á öllum sviðum séu ótvíræð mannréttindi.
  • Ég tel að kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi sé þjóðarmein sem verði að uppræta.
  • Ég tel að ríkisfjármál, ríkisrekstur og skuldir ríkissjóðs þurfi að taka föstum tökum með það að markmiði að geta bætt þjónustu við almenning og fyrirtæki fyrir minna eða sama skattfé.
  • Ég tel að landsmenn eigi að njóta réttmætrar hlutdeildar sinnar í nýtingu sjávarauðlindarinnar. Það verði best gert með réttindum til veiða með tímabundnum leigusamningum sem verði boðnir upp á opnum markaði.
  • Ég tel að loftslagsvá heimsbyggðarinnar sé stærsta verkefni samtímans. Þar má engan tíma missa. Íslendingar eiga að vera í fararbroddi í aðgerðum sem byggja á samvinnu almennings, fyrirtækja og hins opinbera. Nýta á hagræna græna hvata, nýsköpun og leysa þannig úr læðingi krafta sem nýta sér hagkvæmni þess að menga ekki en um leið verði lögð áhersla á að það verði dýrt að menga.

Þetta eru nokkur atriði af fjölmörgum sem ég tel afar mikilvæg og þess vegna tel ég mig eiga erindi á þing til þess að verja almannahagsmuni gegn sérhagsmunum.

Ég sé sæg af tækifærum sem við getum gefið framtíðinni og vona að þú sért sama sinnis.

Gefðu framtíðinni tækifæri - kjóstu Viðreisn.

Höfundur er alþingismaður skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkur kjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×