Skoðun

Ráð­herra rétt­lætir skað­lega þróun

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Það er dapurlegt að horfa upp á Vinstri græn og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra réttlæta þróun sem veldur því að rúmanýting á Landspítala er langt umfram það sem almennt er talið ásættanlegt á bráðasjúkrahúsum.

Í grein sem ég birti hér á Vísi.is á mánudag bendi ég á að fækkun legurýma er „ekki séríslensk þróun og skýrist m.a. af framförum í læknavísindum þar sem meðferðarúrræði færast af legudeildum yfir á dagdeildir“.

Þetta er mikilvægt en breytir því ekki að jafnvel fyrir heimsfaraldur var nýtingarhlutfall legurýma hjá Landspítala gjarnan um og yfir 100%.

Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, bendir á að þetta hafi verið staðan á Landspítalanum í meira en áratug, óháð göngudeildarþjónustu og aukinni tækni.

„OECD-viðmiðin tala um að eðlileg nýting á bráðasjúkrahúsi ætti að vera 85% en allt yfir 90% sé á hættustigi. 100% nýting er skaðleg, slítur út starfsfólki, dregur úr eðlilegum afköstum og kemur í veg eðlilegt svigrúmi spítalans að takast á við faraldra líkt og við erum að upplifa nú,“ skrifar hann.

Þetta vita heilbrigðisráðherra, flokksfélagar hennar og samherjar í ríkisstjórn sem hafa brugðist seint og illa við gagnrýni og neyðarhrópum innan úr heilbrigðiskerfinu en skammast í starfsfólki fyrir að „tala spítalann niður“.

„Það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að hjúkrunarrýmum hafi fækkað undanfarin ár. Þvert á móti hefur þeim fjölgað um samtals 140,“ skrifar ráðherra – en hver hefur haldið því fram að hjúkrunarrýmum hafi fækkað? Það sem skiptir máli er að fjölgun hjúkrunarrýma og uppbygging öldrunarþjónustu hefur ekki haldið í við mannfjöldaþróun og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Um það getur fjöldi fólks sem þarf að bíða vikum saman á Landspítala eftir plássi á hjúkrunarheimili vitnað.

Sjúklingar og starfsfólk eiga skilið að fjallað sé um þessi mál út frá staðreyndum og að það taki við ríkisstjórn í haust sem setur eflingu heilbrigðiskerfisins í forgang.

Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×