Skoðun

Tískuorð stjórnmálanna

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

Eitt vinsælasta tískuhugtakið í orðabók stjórnmálamanna er nýsköpun. Stjórnmálamenn eru duglegir að tala um hvað nýsköpun sé frábær og mikilvægi þess að leggja áherslu á hana. Þeir tala um nýsköpun á þessu sviði og nýsköpun á hinu sviðinu. En þegar stjórnmálamenn eru spurðir um raunverulegar áherslur sínar í nýsköpun og þær aðgerðir sem þurfi að framkvæma, þá komast þeir sjaldan lengra en að endurtaka hugtakið nýsköpun nægilega oft þar til að fólk hættir að hlusta. Það er nefnilega stórt vandamál að mjög fáir stjórnmálamenn hafa raunverulegan skilning á því um hvað nýsköpun snýst og hvað þarf að gera til þess að hún blómstri.

Hvar stöndum við þegar kemur að nýsköpun?

Í skýrslum sínum um stöðu íslensks efnahagslífs sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birtu nýlega, er lögð sérstök áhersla á það að auka til muna fjárfestingu og stuðning við nýsköpun. Ísland eigi enn langt í land að ná öðrum Norðurlanda- og Evrópuþjóðum eins og sjá má á þessari mynd úr skýrslu OECD.

Í sinni skýrslu leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áherslu á að Ísland þurfi dreifðari og sjálfbærari stefnu þegar kemur að því að auka hagvöxt í kjölfar heimsfaraldurs. Uppbyggingin þurfi að gera efnahagslífið fjölbreytt og betur í stakk búið til að takast á við mögulegar krísur í framtíðinni. Þetta feli í sér að byggja upp sjálfbærari ferðamannaiðnað, styðja þurfi kröftuglega við nýsköpun, leggja áherslu á menntun í takt við breytta heimsmynd, draga stórlega úr íþyngjandi regluverki fyrir frumkvöðlafyrirtæki og gera erlenda fjárfestingu aðgengilegri fyrir nýsköpunargeirann.

Óbeisluð tækifæri

Ísland hefur mörg tækifæri þegar kemur að nýsköpun, en mörg þeirra eru illa nýtt vegna ófullnægjandi stuðnings frá ríkinu. Þrátt fyrir að stuðningurinn hafi svo sannarlega aukist á síðasta kjörtímabili þá þarf að fjárfesta mun meira á þessu sviði. Einn reyndur frumkvöðull sagði í umræðum um þessi mál að það sem núverandi ríkisstjórn hefði framkvæmt undanfarið ár væri það sem nýsköpunarsamfélagið hefði verið að biðja um fyrir áratug síðan, en margt hafi breyst á þeim tíma.

Fagleg nýsköpunarstefna

Við Píratar höfum mótað, í samvinnu við nýsköpunarsamfélagið á Íslandi, metnaðarfulla nýsköpunarstefnu sem leggur áherslu á að fjárfesta í fólki og framtíðinni. Við teljum þessa stefnu geta verið lykilinn að hagsæld og atvinnuþróun á Íslandi næstu áratugina, enda stefna með vel skilgreindar aðgerðir sem byggja á reynslu annarra þjóða og ráðleggingum sérfræðinga á þessu sviði.

Nýsköpun á breiðum grunni um allt land

Píratar leggja til stóraukinn stuðning við uppbyggingu og rekstur þróunarsetra, sem tryggja vinnuaðstöðu og miðlun þekkingar fyrir nýsköpun á landsbyggðinni, í náinni samvinnu við sveitarfélög.

Píratar leggja áherslu á nýsköpun á breiðari grunni og tryggja þar með fjölbreytta nýsköpun og samfélagsnýsköpun innan m.a. landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðamennsku, velferðar, menntunar, heilbrigðis, umhverfis og græns iðnaðar, auk allra sviða skapandi greina og við uppbyggingu framtíðarinnviða. Sérstök áhersla verði lögð á að styrkja sjálfbærni og samfélagslegar lausnir.

Einföldun regluverks og skattaumhverfis

Mikilvægt er að auðvelda frumkvöðlum að hefja rekstur nýsköpunarfyrirtækja og að opna á möguleika við að einfalda skattaumhverfi og rekstur þeirra. Við leggjum til að búið verði til nýtt fyrirtækjaform fyrir frumkvöðlafyrirtæki sem hafi einfaldara regluverk, hagkvæmari gjöld og skattalegar ívilnanir, svo sem endurgreiðslu þróunarkostnaðar, sem hvetji til nýsköpunar.

Einfalda fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja

Mikilvægt er að einfalda fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja með auknum efnahagslegum hvötum og tilslökunum til fjárfesta, til að mynda með því að byggja upp regluverk í kringum hópfjárfestingar.

Mikilvægt er að stórauka fjármagn til hinna ýmsu styrktar- og nýsköpunarsjóða, ásamt því að gera styrkja- og fjármögnunarumhverfið heildrænna, aðgengilegra og sveigjanlegra. Þær upphæðir sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að leggja í nýsköpun blikna í samanburði við þær erlendu fjárfestingar sem frumkvöðlafyrirtæki hafa verið að sækja erlendis frá síðustu ár.

Stuðningur við samfélag og vistkerfi nýsköpunar á Íslandi

Tryggja þarf stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og samfélagsleg verkefni á öllum stigum vaxtar með því að styðja við rekstur m.a. nýsköpunarhraðla og lausnamóta á sem flestum sviðum, ásamt stuðningi við ráðstefnur og viðburði innan nýsköpunarvistkerfisins. Hugað verði sérstaklega að fjármögnun fjölbreyttra verkefna á vaxtarstigi og uppbyggingu alþjóðlegra tenginga, ásamt því að gera vistkerfi nýsköpunar á Íslandi aðlaðandi fyrir alþjóðlega frumkvöðla til að stofna nýsköpunarfyrirtæki og þróa sínar vörur/þjónustu hérlendis.

Fræðsla um nýsköpun

Mikilvægt er að tryggja samfellda fræðslu og þátttöku í nýsköpun á öllum stigum menntakerfisins. Leggja þarf aukna áherslu á hagnýtingu grunnrannsókna með stuðningi við verkmenntalínur í menntakerfinu og virkri samvinnu milli opinberra stofnanna, atvinnulífs, háskóla-, frumkvöðla- og alþjóðasamfélagsins.

Koma upp hvatningu til atvinnulausra einstaklinga til að taka þátt í nýsköpun, með gjaldfrjálsum námskeiðum í frumkvöðlamálum, tryggja grunnframfærslu fyrir atvinnulausa sem stofna nýsköpunarfyrirtæki og möguleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að ráða fólk beint af atvinnuleysisskrá.

Fjárfesting til framtíðar

Við viljum sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Við viljum ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið.

Fjárfesting í nýsköpun er fjárfesting sem skilar sér hundrað- ef ekki þúsundfalt aftur inn í samfélagið. Slíkum fjárfestingum er mikilvægt að forgangsraða.

Höfundur er frambjóðandi Pírata í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×