Skoðun

Brúarsmiðurinn Sigurður Ingi

Guðveig A. Eyglóardóttir skrifar

Hugmyndin að Sundabraut er ekki ný af nálinni og hefur reglulega komið til umræðu síðustu áratugi, helst í kringum kosningar. Sveitarstjórnarfólk og íbúar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar hafa ítrekað bent á mikilvægi þessa samgöngubóta en ekkert hefur þokast áfram í málinu svo heitið getur síðustu áratugi. Það er ekki fyrr en á yfirstandandi kjörtímabili þegar Sigurður Ingi settist í stól samgönguráðherra að verkefnið komst loks á dagskrá með formlegri hætti en áður.

Á dögunum var skrifað undir viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg sem marka tímamót í málinu. Nú mun vinna við Sundabrú hefjast af fullum þunga. Áætlað er að allt ferlið taki um 10 ár. Sigurður Ingi hefur lagt mikinn þunga í að koma þessu verkefni á rekspöl og verið óþreytandi við það frá fyrstu dögum sem samgönguráðherra að tryggja að verkefnið verði að veruleika.

Drifkraftur og vinnusemi

Sá drifkraftur sem hefur einkennt störf Sigurðar Inga á kjörtímabilinu endurspeglar vilja hans og vinnusemi ásamt skilning og heildarsýn á mikilvægi innviðauppbyggingar eins og Sundabrautar í víðu samhengi. Sundabrú mun verða mikilvæg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast til og frá höfuðborginni. Samgöngubót sem mun hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Vesturlandi til framtíðar, ásamt því létta á umferð á öðrum stofnbrautum.

Brúarsmiðurinn Sigurður Ingi setti tóninn strax í stjórnarmyndunarviðræðunum eftir síðustu kosningar þegar hann byggði brú frá vinstri væng stjórnmálanna, yfir miðjuna og út á hægri vænginn. Brúin er vel byggð á traustum grunni samvinnuhugsjónar Framsóknar og hefur gefið þjóðinni langþráðan stöðugleika. Brú sem hefur lagt veginn að innviðauppbyggingu á kjörtímabilinu og staðið styrkum stoðum samvinnu og stendur enn traust. Núverandi ríkisstjórn er fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin í lýðveldissögunni til að klára heilt kjörtímabil, og það með gríðarlega góðum árangri.

Stöðugleiki er forsenda samfélagslegra framfara. Í þeim stöðuleika gekk brúarsmiðurinn Sigurður Ingi til fundar við sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu og tók samtalið til að leysa úr áratuga langri kyrrstöðu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.

Til árangurs með samvinnu og skynsemi að vopni

Sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með ólíka sýn, nálgun og hagsmuni og voru dregin að borðinu með það að markmiði að ná fram einhverri mestu samgöngubót sem íbúar þessa svæðis hafa séð í áratugi. Með samvinnu og skynsemina að vopni tókst að byggja brú á milli ólíkra sjónarmiða þar sem niðurstaðan er sérstakur samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins. Niðurstaða sem öll sveitafélögin samþykktu. Þar er kveðið á um umfangsmikla uppbyggingu stofnbrauta, innviða, almenningssamganga, göngu- og hjólastíga auk umferðastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulag um aukin lífsgæði og kyrrstaðan loks rofin með afgerandi hætti.

Íbúar landsbyggðarinnar hafa einnig notið drifkrafts ráðherrans, en stór átak í samgöngumálum um allt land var sett af stað þar sem sérstök áhersla var lögð á umferðaröryggi og miðar m.a. að því að fækka einbreiðum brúm á hringveginum um 14 til ársins 2024 ásamt því að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins. Aldrei hefur jafnmiklu fjármagni verið varið til samgönguumbóta um land allt en á þessu kjörtímabili.

Á síðasta ári kynnti Sigurður Ingi til leiks Loftbrú sem brúa á bilið milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar. Loftbrúin niðurgreiðir fargjöld þeirra sem búa á landsbyggðinni og hefur heppnast ákaflega vel sem byggðaaðgerð. Ljóst er að Loftbrúin bætir aðgengi landsbyggðarinnar að mikilvægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að styrkja stoðir og rekstragrundvöll flugsamgangna innanlands.

Á vettvangi sveitarstjórnarmála hef ég átt samtal um samgöngumál við kjörna fulltrúa sveitarfélaga úr öllum flokkum. Sveitarstjórnarfulltrúar, þvert á flokka hafa haft orð á því við mig að farsælast væri að hafa Sigurð Inga áfram sem ráðherra samgöngumála þegar horft sé til árangurs á yfirstandandi kjörtímabili. Við Framsóknarfólk erum bjartsýn með Sigurð Inga í forystu. Leiðtogi sem byggir brýr og vinnur eftir samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins samfélaginu öllu til hagsbóta.

Höfundur er oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×