Erlent

Sendi­herra kallaður heim eftir að konan hans sló af­greiðslu­konu

Kjartan Kjartansson skrifar
Sendiráð Belgíu í Suður-Kóreu verður brátt húsbóndalaust eftir að ákveðið var að kalla sendiherrann heim.
Sendiráð Belgíu í Suður-Kóreu verður brátt húsbóndalaust eftir að ákveðið var að kalla sendiherrann heim. AP/Lee Jin-man

Belgíska utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að kalla sendiherra sinn í Suður-Kóreu heim eftir að eiginkona hans réðst á afgreiðslukonu í höfuðborginni Seúl í síðasta mánuði. Eiginkonan bar upphaflega fyrir sig friðhelgi diplómata til að komast hjá ákæru en ráðuneytið féll frá því.

Uppákoman átti sér stað í fataverslun í Seúl 9. apríl. Eiginkona sendiherrans hafði þá skoðað föt um nokkra hríð en þegar hún fór út elti afgreiðslufólk hana þar sem það grunaði hana um hnupl. Hún brást við með því að slá afgreiðslukonu og ráðast að annarri.

Peter Lescouhier, sendiherra Belgíu í Suður-Kóreu, baðst afsökunar á framferði Xiang Xueqiu, eiginkonu sinnar, og hún hitti síðar starfsmanninn sem hún sló til að biðjast afsökunar fyrir sitt leyti.

Engu að síður ákvað utanríkisráðuneytið að Lescouhier væri ekki lengur sætt sem sendiherra eftir uppákomuna, jafnvel þó að hann hefði að öðru leyti sinnt starfi sínu með sóma, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þrátt fyrir að belgísk stjórnvöld segja að þau hafi afsalað sér friðhelgi fyrir hönd Xiang segir suður-kóreska utanríkisráðuneytið að henni hafi aðeins verið afsalað að hluta. Sendiherrafrúin njóti áfram friðhelgi fyrir saksókn og refsingu, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Sendiherrafrú ber fyrir sig friðhelgi vegna löðrungs

Eiginkona belgíska sendiherrans í Suður-Kóreu ber fyrir sig friðhelgi erindreka erlendra ríkja til að komast undan ákæru eftir að hún sást greiða afgreiðslukonu í verslun kinnhest í Seúl. Starfsfólk verslunarinnar hafði grunað hana um hnupl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×