Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að þeir hafi rætt ítarlega saman um ástandið á Gasa og aðgerðir Ísraels gegn Hamas-samtökunum og öðrum aðilum.
Yfirlýsingin er stutt og endar á því að Biden hafi komið því áleiðs við forsætisráðherrann að hann væntist þess að verulega yrði dregið úr átökunum í dag og stefnan sett á vopnahlé.
Fyrr í dag hafði Netanjahú sagt að ekkert vopnahlé væri til umræðu milli Ísraela og Hamas.
Alþjóðlegur þrýstingur hefur aukist verulega á Ísrael undanfarna daga, samhliða fregnum af miklu mannfalli meðal almennra borgara á Gasa og sömuleiðis miklu eignatjóni.
Minnst sex manns féllu í loftárásum á Gasa í morgun og var minnst eitt hús jafnað við jörðu. Þá hafa fregnir borist af því að eldflaugum hafi verið skotið að Ísrael frá Líbanon.
AP fréttaveitan segir minnst 219 Palestínumenn hafa fallið í árásum síðustu daga og þar af 63 börn. Rúmlega 1.500 eru sagðir hafa særst. Í Ísrael hafa tólf fallið í eldflaugaárásum og þar af tvö börn.