Í fyrra dró þó til tíðinda þegar Skipulagsstofnun skilaði umhverfismati sínu og fór Landsnet í kjölfarið að afla sér tilskyldra leyfa fyrir framkvæmdinni frá sveitarfélögum sem línan á að liggja um. Þau eru Grindavík, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Vogar. Landsnet fékk leyfi frá öllum sveitarfélögunum nema Vogum, sem hafnaði því að veita Landsneti framkvæmdaleyfið í mars.
Vogar vilja að Landsnet leggi línuna í jörðu eins og Skipulagsstofnun mældi með í umhverfismati sínu en Landsnet hyggst leggja loftlínu, sem er mun ódýrari framkvæmd.
Landsnet vísaði þessari ákvörðun Voga til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og bíða nú niðurstöðu hennar í málinu. Nefndin hefur samkvæmt lögum þrjá til sex mánuði frá því að öll gögn í málinu liggja fyrir til að kveða upp endanlegan úrskurð. Algengara er að málsmeðferðartími nefndarinnar sé nær sex mánuðum en þremur og nokkuð ljóst að engin niðurstaða fæst í það fyrr en á seinni mánuðum þessa árs.
Fleiri kærur fyrir nefndinni
Upplýsingafulltrúi Landsnets, Steinunn Þorsteinsdóttir, segir engin fordæmi fyrir því að framkvæmdaleyfi sem uppfyllir öll skilyrði fyrir útgáfu leyfis hafi verið hafnað og vonast eftir því að úrskurðarnefndin snúi ákvörðun Voga.
Ofan á kæru Landsnets hafa svo fimm náttúruverndarsamtök kært framkvæmdaleyfin sem hin sveitarfélögin höfðu veitt Landsneti til sömu nefndar og telja þau málsmeðferð sveitarfélaganna hafa verið gallaða, grenndarkynningu hafi skort á málinu auk þess sem þau telja kerfisáætlun ólögmæta og valkostamat ófullnægjandi.
Náttúruverndarsamtökin fimm eru Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Ungir umhverfissinnar og Hraunavinir.
Sammála um þörf á annarri línu
Suðurnesjalína 1 er nú eina línan sem skaffar Suðurnesjunum raforku en flestir sem koma að málinu, sveitarfélög, ráðherrar og Skipulagsstofnun virðast sammála um að þörf sé á annarri línu til að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum.
Sem fyrr segir strandar málið nú helst á Vogum sem vilja línuna í jörðu en ekki loftlínu.