Erlent

Sendiherrafrú ber fyrir sig friðhelgi vegna löðrungs

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Seúl í Suður-Kóreu.
Frá Seúl í Suður-Kóreu. Vísir/Getty

Eiginkona belgíska sendiherrans í Suður-Kóreu ber fyrir sig friðhelgi erindreka erlendra ríkja til að komast undan ákæru eftir að hún sást greiða afgreiðslukonu í verslun kinnhest í Seúl. Starfsfólk verslunarinnar hafði grunað hana um hnupl.

Uppákoman náðist á upptöku öryggismyndavélar í versluninni. Þar virtist Xiang Xueqiu, 63 ára gömul eiginkona Peters Lescouhier, sendiherra Belgíu, slá starfsmann. Breska ríkisútvarpið BBC segir að starfsmenn verslunarinnar hafi viljað kanna hvort að fötin sem Xiang var í þegar hún hugðist yfirgefa verslunina væru hennar eigin.

Xiang er sögð hafa mátað föt í klukkustund áður en hún yfirgaf verslunina. Hún var í fötum frá sömu verslun og vildu starfsmennirnir kanna hvort þau væru ný og hvort hún hefði greitt fyrir þau. Á upptökunni sást að Xiang elti starfsmann aftur inn í verslunina en þar virtist hún ýta við og slá annan starfsmann sem reyndi að skerast í leikinn.

Sendiherrann hefur þegar beðist afsökunar á „óásættanlegum“ viðbrögðum konu sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×