Mikið mannfall hefur orðið á Gasasvæðinu vegna árása Ísraelshers en í það minnsta 188 Palestínumenn hafa látið lífið, þar á meðal 55 börn. Mannfallið er því mun hærra en það sem hefur orðið í Ísrael, en þar hafa átta látist.
„Ég held að öll lönd hafi rétt til þess að verja sig. Náttúrulegan sjálfsvarnarrétt,“ sagði Benjamin Netanyahu forsætisráðherra í viðtali við Face The Nation á CBS í dag. „Við erum að einblína á hryðjuverkasamtök sem beina árásum sínum á óbreytta borgara okkar en fela sig á bak við sína eigin.“
Hann segir að átökin „muni taka tíma“ og kippir sér lítið upp við ákall alþjóðasamfélagsins um vopnahlé. Í ávarpi sínu til þjóðarinnar, sem vitnað er til á vef Financial Times, sagði hann alltaf vera þrýsting; „en heilt yfir erum við að fá alvöru stuðning, fyrst og fremst frá Bandaríkjunum.“
Loftskeyti Ísraela hafa jafnað margar stærstu byggingar Gasasvæðisins við jörðu, þar á meðal skrifstofur og íbúðarhúsnæði. Í gærnótt var bygging sem hýsti meðal annars skrifstofur fréttastofanna AP og Al Jazeera sprengd í loft upp. Blaðamenn og aðrir starfsmenn fengu skamman tíma til að forða sér, en ísraelski herinn fullyrðir að í byggingunni hafi verið eignir Hamas-liða.
Video of inside the press offices of the Associated Press and AlJazeera before the Gaza building was levelled to the ground. Journalists trying to grab precious and valuable equipment in short period. pic.twitter.com/Bi14stu49M
— Bessma Momani (@b_momani) May 15, 2021
„Gjörsamlega hræðilegt“
Víða um heim hefur mótmælt vegna loftárásanna og leiðtogar heimsins kallað eftir því að átökum linni á svæðinu. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði stöðuna „gjörsamlega hræðilega“ og sagði nauðsynlegt að árásum yrði hætt.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í dag og sagði Antonio Guterres að Sameinuðu þjóðirnar væru að taka virkan þátt í því að hvetja báðar þjóðir til vopnahlés. Bandaríkin sögðust hafa lýst því yfir við bæði Ísrael og Palestínu að þau séu tilbúin að bjóða fram stuðning, ef aðilar sættast á vopnahlé.
„Bandaríkin hafa unnið sleitulaust í gegnum diplómatískar leiðir að binda enda á þessa deilu,“ sagði Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. „Því við trúum því að Ísraelar og Palestínumenn eigi jafnan rétt til þess að búa við öryggi.“