Innlent

Töluvert um ölvun í höfuðborginni

Kjartan Kjartansson skrifar
Sumir virðast hafa gengið of greitt inn um gleðinnar dyr í miðborginni í gærkvöldi. Myndin er úr safni frá kyrrlátara kvöldi.
Sumir virðast hafa gengið of greitt inn um gleðinnar dyr í miðborginni í gærkvöldi. Myndin er úr safni frá kyrrlátara kvöldi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkrum fjölda útkalla vegna ölvaðs fólks í gærkvöldi og nótt. Tilkynnt var um tvær líkamsárásir í miðbænum.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að þónokkur mál þar sem ölvaðir einstaklingar voru til vandræða hafi komið á borð hennar í miðborginni á milli klukkan sjö og tíu í gærkvöldi. Enginn var þó handtekinn heldur málin leyst með aðkomu lögreglu.

Ofurölvi maður sem hafði reynt að opna bifreiðar í miðbænum var vísað brott eftir að lögreglumenn ræddu við hann skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi. Frá ellefu til hálf tólf var tilkynnt um tvær líkamsárásir, eina á skemmtistað í miðbænum og aðra utandyra.

Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt um ofurölvi mann sem fann ekki heimili sitt og reyndi að banka hjá fólki til að komast inn. Lögreglumenn óku honum heim til sín.

Á svæði lögreglustöðvarinnar fyrir Kópavog og Breiðholt var tilkynnt um átök tveggja manna á sjötta tímanum í gær. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Rétt fyrir klukkan sjö var tilkynnt um menn að brjótast inn í bifreiðar. Þeir komu sér undan á hlaupum rétt áður en lögreglu bar að garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×