Innlent

Partí­gestur ýtti við lög­reglu­þjóni og sparkaði í lög­reglu­bíl

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögregla sinnti tveimur verkefnum vegna samkvæma sem rötuðu í dagbók hennar, fyrstu helgina eftir að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar.
Lögregla sinnti tveimur verkefnum vegna samkvæma sem rötuðu í dagbók hennar, fyrstu helgina eftir að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um partíhávaða frá íbúð í Hlíðahverfinu í Reykjavík klukkan hálf eitt í nótt. Samkvæmt dagbók lögreglu var þar fjöldi ungmenna með múgæsing og fóru fæst þeirra eftir fyrirmælum lögreglu, sem ekki kemur fram hver voru.

Þá segir að maður sem staddur var í samkvæminu hafi ýtt við lögreglumanni, auk þess sem hann hafi sést sparka í lögreglubifreið og reynt að hlaupa á brott. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu, en eftir handtökuna fundust ætluð fíkniefni hjá manninum, eins og lögregla orðar það í dagbókarfærslu.

Þá barst lögreglu tilkynnig um líkamsárás í Mosfellsbæ á fjórða tímanum. Þar höfðu óboðnir gestir mætt í afmælisveislu. Þegar þeim var vísað út var einn gesta afmælisins sleginn í höfuðið með flösku, svo að blæddi úr enni hans. Þó var ekki talin þörf á að kalla út sjúkrabíl. Árásarmaður var samkvæmt dagbók á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang.

Þá sinnti lögregla eftirliti með sóttvarnaráðstöfunum veitingastaða í Hafnarfirði. Aðstæður á fjórum stöðum voru kannaðar og gerði lögregla engar athugasemdir við aðbúnað neins þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×