Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu í dag. Tilefnið er frétt Morgunblaðsins og mbl.is í dag, þar sem rætt er við Erlend Þór Gunnarsson, lögmann fjölda rekstraraðila í miðborginni. Erlendur segir í samtali við blaðið að lögregla beiti óbeinum hótunum í samskiptum við rekstraraðila þegar líða tekur að lokun, sem er klukkan 22 á kvöldin samkvæmt sóttvarnareglum.
„Svo virðist sem skilningur rekstraraðila og lögreglu á afgreiðslutíma veitingahúsa sé ekki sá sami. Þannig hefur í nokkur skipti komið til snarpra orðaskipta milli eigenda og lögregluþjóna, sem hafa hótað að beita sektum verði stöðunum ekki lokað og allir gestir farnir þaðan klukkan 22. Allt virðist þetta þó byggt á mismunandi túlkun á þeim reglum sem nú eru í gildi,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Samskiptin verið með ágætum
Lögregla segir í yfirlýsingu að lögregla vinni samkvæmt túlkun heilbrigðisráðuneytisins á reglugerð um samkomutakmarkanir. „[…] og þar, sem annars staðar, hefur lögreglan beitt meðalhófi,“ segir í yfirlýsingunni.
„Lögreglumenn hafa einnig lagt sig fram um að leiðbeina veitingamönnum um það sem betur má fara, séu ástæður til þess. Ábendingunum hefur verið vel tekið og samskiptin verið með ágætum.“
Þá er áréttað í tilkynningu að opnunartími veitingastaða sé samkvæmt reglugerð til klukkan 22 á kvöldin. Þá eigi staðirnir að vera tómir, „enda sé þessum stöðum ekki heimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21.“