Skoðun

Er Covid-ótti aðeins fyrir útvalda?

Helga Birgisdóttir skrifar

Ekki það að ég mæli með ótta, en merkilegt nokk, þá er metist um hann og vinsældir hans vaxa hratt. „Iss piss, með ÞINN ótta; hann er bara rugl og sýnir að þér er sama um alla aðra.“ Jebb, þú ógnar fjöldanum; ef þú deilir ekki rétta ríkisóttanum. Svo þú þegir - skiljanlega. Vilt ekki að aðrir haldi að þú viljir drepa einhvern.

Það virðast tvær reglur vera í gildi: 1. Það skal óttast kórónaveiru og fólk almennt. 2. Það skal ekki óttast: bóluefni, grímur, einangrun, bann við samveru ástvina, atvinnumissi, heilsuleysi og dauða af afleiðingum sóttvarnarreglna, efnahagslegt hrun, að detta úr skóla, yfirvöld.

Þakka má fyrir að manni er leyft að vera með sjálfum sér. En erum við kannski búin að missa tengingu við okkar eigið SJÁLF?

Það eina sem vert er að óttast, ef svo má segja, er óttinn sjálfur. Flest óttumst við eitthvað, og það versta, fyrir flesta, er óttinn við þjáningu og dauða. Við höfum þó mismunandi skilgreiningar á hvað skapar slíkt ástand. Sumum finnst einangrun verri en dauðinn, á meðan aðrir loka sig af í heilt ár, til að deyja nú örugglega ekki. Sumir eru hræddir um að deyja af bólusetningu, á meðan aðrir eru hræddir um að deyja ef þeir fá hana ekki.

Flest þörfnumst við viðurkenningar annarra og erum jafnvel tilbúin að gera hvað sem er til að vera samþykkt. Við setjum því upp grímu og felum sannleika okkar. Þegar fólk er þvingað og svipt frelsi er hætta á streitu sem hefur áhrif á líf og heilsu.

Fólk óttast það sem ógnar þeirra ótta

Það er skrítið samfélag sem leyfir ekki fólki að tjá sig. Það er skrítið samfélag sem samþykkir að ráðist sé á þá sem hafa ólíka skoðun. Það kallast meðvirkni og í slíku umhverfii þrífast oft skaðleg leyndarmál.

Getur verið að við óttumst dauðann svo mikið, að við fórnum jafnvel lífinu, til að forðast hann? Leggjum okkar ljúfa líf á hillu í geymslunni, þar til það rykfellur, gleymist, og fer að slá í það. Kannski kominn tími á að rýna í hvað gefur lífinu mest gildi. Það er vegna ótta við dauða og skort að stríð eru háð í heiminum og misrétti er beitt. Það er vegna þesslags ótta sem kærleika er sópað undir teppið; hvort sem er á mánudegi eða á jóladegi.

Síðasta árið hefur heimurinn orðið súrrealískari en nokkrum óraði fyrir og stríðástand ríkt, þó ekki sé verið að varpa sprengjum. Jafnvel á Íslandinu góða hafa skapast andstæðar fylkingar sem berjast með vopnum útskúfunar, haturs og sleggjudóma. Ekki vegna þess að fólk vilji öðrum illt - heldur vegna þess að fólk trúir að aðrir ógni lífi sínu og sinna ástvina. Óttinn er mataður oní okkur alla daga; með tölulegum upplýsingum og fyrirmælum í fréttum um hvað má, en þó aðallega; hvað má ekki. Allt til að bjarga okkur frá dauðanum. Lítill áhugi fjölmiðla er til að kynna sér aðrar hliðar málanna, og það væri í fínu lagi . . . ef aðrir fengju að kynna sér þær í friði . . . og tjá sig.

Einn kassi fyrir alla

Af hverju erum við viss um kassinn sem yfirvöld hafa troðið okkur í sé hinn eini rétti? Yfirvöld búa til reglukassa, nú sem oftar, og vei þeim sem vill út úr honum. Blindandi skulum við treysta því að kassinn forði okkur frá þjáningu og dauða. Kassinn er lokaður, þröngur og gluggalaus, og ekkert pláss fyrir vangaveltur sem gætu sprengt lokið af. Hafa yfirvöld, hingað til, alltaf haft mestu viskuna og velvildina almenningi til heilla?

Meðvirkni kraumar í hverju horni og ekkert lát virðist á. Hún er alvarlegt heilsufarslegt vandamál og eitt af einkennum hennar er þöggun. Við tölum ekki um neitt sem ruggar bátnum. Fjöldi fólks hefur sagt að það óttist lítt rannsakað bóluefni og vilji það alls ekki. Eins eru margir á báðum áttum. Þessir aðilar þora varla að tjá sig, sérstaklega ef þeir tilheyra heilbrigðisstéttum. Hin fylkingin telur sig í fullum rétti að hrauna yfir viðkomandi með dónaskap og reiði. Fólk er sakað um heimsku og eigingirni - og það sem verra er; að bera ábyrgð á veikindum og dauða annarra. Skömm og sektarkennd eru einkenni meðvirkni, og það er ofbeldi að troða slíku upp á aðra, að ég tali nú ekki um börn.

Aldrei fyrr hefur reynt eins mikið á frelsi, mannréttindi og lýðræði.

Enginn þarf að vera sammála öðrum, en væri ekki meiri mennska að leyfa fólki að tjá sig án persónulegra árása? Kjarkur kemur frá hjartanu og hann þarf oft til að sýna kærleika í verki. Gott er að hafa slatta af kurteisi með. Lifið heil.

Greinarhöfundur er forsprakki Meðmæla með Mannréttindum, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, frumkvöðull SMILER, NLP meðferðar/og markþjálfi og myndlistakona.




Skoðun

Sjá meira


×