Skoðun

Heimska eða illska

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar

Stundum er ekki nema um tvennt að ræða; svart eða hvítt, gamalt eða nýtt, heimsku eða illsku.

Það er ekki talið til marks um gáfur að endurtaka augljós mistök og vera svo hissa á að afleiðingar þeirra endurtaki sig. Með þá staðreynd í huga, hvernig ber manni þá að túlka það að stjórnvöld séu að endurtaka „mistökin“ frá bankahruninu 2008 hvað varðar heimilin í landinu?

Er það af heimsku eða illsku?

Eða er þeim bara alveg sama um heimilin, fjölskyldurnar í landinu?

Við vitum öll að ráðamenn þjóðarinnar eru ekki illa gefið fólk. Við getum verið ósammála þeim um leiðir, en þau eru ekki illa gefin. Það er heldur ekki mitt að dæma um það hvernig fólk er innréttað og miðað við kynni mín af sumum þeim sem stjórna landinu, þá er þetta hið mætasta fólk.

En hvað er það þá sem veldur því að í öllum þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur þó ráðist í vegna Covid á undanförnum mánuðum, hefur ekki neitt, EKKI EINN HLUTUR, verið gerður til að verja heimili landsins fyrir afleiðingum tekjutaps og atvinnuleysis?

Hagsmunasamtök heimilanna, sjálfboðaliða samtök með tvo starfsmenn í hlutastarfi, sáu fyrir í hvað stefndi snemma á síðasta ári og sendu strax í mars fyrstu áskorun sína til ríkisstjórnar Íslands að endurtaka ekki skelfileg mistök bankahrunsins, sem hafa valdið því að a.m.k. 15.000 fjölskyldur hafa misst heimili sín.

Í áskorun HH stóð „ Það dylst engum að ef fram heldur sem horfir mun efnahagslíf þjóðarinnar og jafnvel heimsins alls verða fyrir miklu áfalli, þannig að viðspyrnu er þörf og nauðsynlegt að undirbúa hana eins vel og hægt er.“

Þegar þarna var komið sögu hafði ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks kynnt fyrstu aðgerðir sínar vegna faraldursins án þess að minnast einu orði á heimilin. Síðan þá höfum við hjá Hagsmunasamtökunum sent frá okkur meira en 20 áskoranir og greinar um þetta efni.

Við höfum því miður talað fyrir daufum eyrum. Ríkisstjórn Íslands hefur greinilega ákveðið að láta heimilin reka að feigðarósi á meðan hún lítur í hina áttina og passar hina útvöldu.

Og hverjir eru hinir útvöldu?

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör, því það er erfitt að benda á og henda reiður á því hvernig angar hinna útvöldu teygja sig um samfélagið og það er efni í langa bók. En við vitum samt öll hverjir þetta eru þó við sjáum þau ekki alltaf, því nálægð þeirra er allt um vefjandi og byrðarnar sem lagðar hafa verið á fjölskyldurnar sem taldar eru ásættanlegur fórnarkostnaður, eru þungar.

Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að hjálpa fyrirtækjum og þar hafa sum óneitanlega verið frekari til fjársins en önnur. Jú, það kemur fjölskyldum og heimilum vel að hafa vinnu og að því leiti má teygja þessar aðgerðir og segja að þær séu fyrir heimilin. En hvað með fjölskyldurnar sem ekki fá vinnu? Hvað með fjölskyldur og heimili sem ráða ekki við skuldbindingar sínar vegna ástands sem þær eiga enga sök á?

Það eru yfir 26.000 manns á atvinnuleysisskrá. Á Íslandi þarf tvær fyrirvinnur ef vel á að vera og flestar fjölskyldur miða skuldbindingar sínar við það. Það er varlegt að gera ráð fyrir að 1/3 þessara fjölskyldna lendi í einhverskonar greiðsluvanda sem jafnvel leiði til heimilismissis. Það eru nærri því 9000 heimili, sem ríkisstjórnin hefur hreinlega „gefið fingurinn“ og sagt að éta það sem úti frýs.

AFTUR er ríkisstjórn Íslands að fórna heimilum landsins fyrir fjármálafyrirtækin, fyrir þá sem aldrei fá nóg og allt vilja gleypa.

Það voru nefnilega ekki gerð nein „mistök“ á árunum eftir hrun. Heimilunum var fórnað af eins mikilli óbilgirni og einbeittum brotavilja og hugsast getur af fólkinu sem þá hafði lofað „Skjaldborg um heimilin“.

Fórnin tókst vel og bankarnir hafa lifað eins og blóm í eggi alveg þar til „of-veiði“ á heimilum landsins fór að segja til sín og stjarnfræðilegur hagnaður þeirra að minnka aðeins á síðustu tveimur árum.

Covid er eins og happdrættisvinningur fyrir bankanna sem þegar hafa lagt net sín og bíða eftir að heimilin brotni á flúðunum.

Og aftur er það í boði stjórnvalda!

Þetta er ekki heimska og sennilega ekki illska heldur, þó ég skilji ekki hvernig fólk sem fórnar heimilum sefur á næturnar. Nei þetta er hagsmunagæsla í sinni verstu mynd – þetta eru svik við fólkið í landinu.

Mikil er skömm ykkar!

Höfundur er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×