Skoðun

Ekki vera geðveik

Eva Sjöfn Helgadóttir skrifar

Það fólk sem er svo óheppið að upplifa það á lífsleiðinni að fá líkamlega sjúkdóma allt frá beinbroti til greiningar um krabbamein. Þeir einstaklingar fá alla okkar samhygð, stuðning og þjónustu. Auðvitað! Það væri á skjön við það sem við skilgreinum sem mannréttindi ef þau fengju ekki þjónustu við hæfi við beinbroti eða alvarlegum sjúkdómum sem gætu dregið þau til dauða. Það væri á skjön við allt sem við trúum á í okkar samfélagi ef við myndum ekki sinni veikasta fólkinu okkar með bestu meðferð hverju sinni. Þá getum við spurt okkur eru banvænir sjúkdómar mis mikilvægir? Er fólkið sem veikist af alvarlegum sjúkdómum mis mikilvægt? Ef þingmenn væru spurðir að þessu myndu þeir væntanlega svara neitandi. Staðreyndin er þó sú að það skiptir máli. Það má meðal annars sjá með því að velta fyrir sér hvers vegna Heilbrigðisráðherra þyki í lagi að setja einungis 5% af því fjármagni sem áætlað er að þurfi til uppfylla niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu í fjárlög þessa árs.

Umhverfi og líðan

Við sem samfélag endurspeglumst í því hvernig við sinnum okkar viðkvæmustu hópum, öldruðum, börnum, veikum, öryrkjum og fötluðum. Veltum aðeins fyrir okkur hvað umhverfi hefur mikil áhrif á líðan okkar. Geðdeildir spítalanna eru deildir þar sem að veikt fólk kemur til að öðlast hugarró. Því mætti ætla að umhverfið væri fallegt og vel hlúð að því til að notendum liði vel. Það að vera í góðu umhverfi hefur áhrif á líðan okkar. Raunin á Íslandi er sú að geðdeildin á Hringbraut er eins og hún hafi seinast verið innréttuð 1953 og Kleppsspítali sem er endurhæfingar geðdeild er nú ekki skárri. Starfsfólkið reynir sitt besta í ómögulegum aðstæðum í fjársveltu kerfi. Þar sem að búsetuúrræði fyrir geðfatlaða eru mjög takmörkuð þá er raunin sú að margir eru alltof lengi inni á spítala í óásættanlegu umhverfi.

Búseta geðfatlaðra

Fólk sem þarf að komast út í lífið og í sína eigin íbúð eða annað er oft bent á að fara á leigumarkaðinn þar sem að skortur á íbúðum fyrir þennan hóp er algjör. Jafnvel þó að einstaklingurinn sé metinn sem svo að besta meðferðin fyrir hann væri að fara í þjónustuíbúð eða búsetukjarna þá er biðin eftir þeim úrræðum oft eitt til tvö ár eða jafnvel lengur. Fólki er þó vísað út af spítalanum þar sem að endurhæfing er búin en hvað tekur við? Einstaklingar fara á leigumarkaðinn og margir flytja heim til foreldra eða annarra aðstandenda. Langar einhverjum fullorðnum einstakling að búa á sófanum hjá foreldrum sínum? Ekki langar mig það en þér? Sú lausn ef lausn skal kalla er ekki neinum til bóta. Þá sérstaklega ekki manneskju sem er að reyna að byggja sig upp og hafa trú á eigin getu að fóta sig í samfélaginu. Löng innlögn á spítala getur haft slæm áhrif á sjálfsmynd okkar. Þegar að spítalinn og sveitarfélögin sjá sér ekki fært um að sinna endurhæfingu veikasta fólksins okkar á réttan hátt þá spyr maður sig, hvers konar samfélagi búum við í? Hvað er það sem að skiptir máli? Ætlum við öll að horfa framhjá þeirri eymd sem að margir upplifa vegna skorts á þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu og öllum mannslífum sem við missum vegna geðsjúkdóma. Það eru dæmi um að fólk sé inni á geðdeildum í hátt í tvö ár vegna skorts á búsetuúrræðum. Finnst okkur þetta bara allt í lagi?

Vindum rétt og örugglega ofan af margra áratuga vanrækslu

Heilbrigðisráðherra hefur komið fram og sagt frá öllum þeim peningum sem að farið hafa í geðheilbrigðiskerfið og hversu langt við erum komin. Við skulum ekki gleyma því að Íslendingar eru að nota mun meira að geðlyfjum en nágrannaþjóðir okkar. Inni á hjúkrunarheimilum árið 2018 þá var geðlyfjanotkunin 54,5% samkvæmt heimildum úr Læknablaðinu í grein eftir Pál Biering. Árið 2017 voru börnin okkar að nota margfalt meira magn af lyfjum en börn nágrannaþjóða en þá heimild má nálgast á heimasíðu Embætti landlæknis. Þar má sjá að íslensk börn fimm ára og yngri nota þrefalt meira af róandi og kvíðastillandi lyfjum borið saman við hin norðurlöndin. Þegar horft er til eldri barna frá fimm til níu ára þá kemur í ljós að tuttugufalt fleiri börn á Íslandi fá ávísað þunglyndislyfjum í þessum aldurflokk en á öðrum norðurlöndum. Árið 2018 var fimmta hver kona á Íslandi á þunglyndislyfjum og ellefu þúsund einstaklingar á svefnlyfjum. Finnst okkur þetta ásættanlegt? Aldraðir, börn og við hin séum á lyfjum við hinum ýmsa tilfinningavanda kannski allt okkar líf. Þegar að vitað er að besta og fyrsta meðferð við mörgum kvíðaröskunum er til dæmis er samtalsmeðferð en ekki lyf. Stundum þarf fólk lyf sem hækju á meðan unnið er í ákveðnum vanda en við erum á rangri leið þegar að Íslendingar eru að setja met í geðlyfja og svefnlyfjanotkun á norðurlöndunum.

Horfumst í augu við vandann

Getum við virkilega ekki veitt fólkinu okkar og þá sérstaklega viðkvæmustu hópunum betri geðheilbrigðisþjónustu. Kæru Íslendingar fjármagnið sem fer í geðheilbrigðiskerfið og niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu er einungis dropi í hafið til að vinda ofan af margra ára vanrækslu á geðheilbrigðisþjónustu. Vandinn er greinilegur, við þurfum í sameiningu að finna lausn á honum en svarið er klárlega ekki það að auka lyfjaskammtinn eða senda fólk á sófann hjá foreldrum. Ef við gerum þetta rétt þá munum við án efa bjarga mannslífum sem að skipta jafn miklu máli og önnur mannslíf.

Höfundur er sálfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×