Skoðun

Er manneskja minna virði vegna geð­sjúk­dóms?

Árdís Rut Einarsdóttir skrifar

Það er verulega umhugsunarvert að árið 2021 þurfi fólk að skammast sín fyrir að vera með geðsjúkdóm og að við búum við kerfi þar sem þessum sjúklingum er fyrir bestu að leyna sjúkdóm sínum til að vera betur settur í samfélaginu.

Þegar einstaklingur með geðsjúkdóm sækir um líf- og sjúkdómatryggingu er undantekningarlaust krafist svara um sögu geðsjúkdóma og þá hvaða sjúkdómsgreiningar hann hefur verið greindur með. Þannig virðist t.d. geðhvarfasýki undantekningarlaust verða talin útilokandi varðandi tryggingar á meðan ADD/ADHD valda því ekki. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að einkenni þessara sjúkdóma eru keimlík og oft greinist aðili með ADD/ADHD einnig með geðhvarfasýki, og öfugt.

Þannig getur aðili, sem er með geðhvarfasýki, og hefur leitað sér hjálpar og er stöðugur, verið hafnað um líftryggingu. Hins vegar getur sá sem hugsanlega er með geðhvarfasýki, og hefur ekki leitað sér aðstoðar og verið greindur, fengið slíka tryggingu án athugasemda. Þarna er verið að „refsa“ fólki með geðsjúkdóma fyrir að leita sér hjálpar og takast á við sjúkdóminn. Enginn biður um að fá geðsjúkdóm, ekkert frekar en aðra sjúkdóma, eins og t.d. krabbamein, heldur er þetta í sumum tilfellum undirliggjandi vá sem bíður færis þegar síst skyldi.

Viljum við ekki búa í samfélagi þar sem fólk er ekki aðgreint og einangrað fyrir að vera með sjúkdóm? Af hverju eru geðsjúkdómar „verri“ sjúkdómar en t.d. krabbamein?

Árið 2020 var ástandið í þjóðfélaginu átakanlegt. Fólkið er okkar mesti arður og án þess er ekkert atvinnulíf, ekkert peningaflæði, engin menntun o.sv.frv. Er ekki mikilvægt að fólk fá lausn sinna vandamála, eins og frekast er unnt, í stað þess að stór hluti geðsjúkra séu tilneyddir til að þiggja örorkubætur sökum þess að þau geta ekki komist aftur á vinnumarkað. Oft geta þeir heldur ekki nýtt menntun sína, geta ekki notið sömu tækifæra og „venjulegt“ veikt fólk, því þeirra sjúkdómur er ekki viðurkenndur.

Af þessum sökum er mikilvægt að laga þessa tímaskekkju árið 2021, þar sem geðsjúkdómar ættu að vera metnir til jafns við aðra sjúkdóma. Það er óásættanlegt að verulega veikt fólk þurfi að bíða í óratíma eftir að komast að hjá geðlæknum og að öll sálfræðiþjónusta sé ekki niðurgreidd. Þetta býr einfaldlega til snjóbolta, sem rúllar bara áfram og veikir undirstöður samfélagsins á hverjum degi.

Fjárfestum í framtíðinni með öflugri geðheilbrigðisþjónustu.

Allir eiga sama rétt, sama hver sjúkdómsgreiningin er!

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×