„Líkur eru til að þau nái að ljúka mælingu á því sem þar er á ferðinni í dag og á morgun. Upp úr því ætti að liggja fyrir hvað er mikið á ferðinni þar,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

„Spurningin er þá hvað er af loðnu fyrir norðan og vestan. Það er bræla í kortunum á næstunni.“
Hafrannsóknastofnun er í biðstöðu með að senda eigin rannsóknaskip af stað en stefnt er á annan stóran loðnuleitarleiðangur.
„Við stefnum að mælingu fyrir norðan og vestan í næstu viku, þegar vindur gengur niður, á nokkrum skipum. Vonandi verður lagt í hann á mánudaginn.
Þá verður hafsvæðið fyrir norðan kortlagt og vonandi líka fyrir vestan í Grænlandssundi. Ísinn er eitthvað að gefa sig og líkur til að hann hörfi meira í þessari stífu norðaustanátt sem er í kortunum næstu daga,“ segir Sigurður.

En hvenær má búast við að Hafrannsóknastofnun geti gefið út nýja ráðgjöf um veiðar úr loðnustofninum? Gæti það gerst strax í þessari viku, á grundvelli þess sem er að sjást á Austfjarðamiðum?
„Það fer allt eftir því hvað mikið mælist fyrir austan. Spurningin er líka: Er þetta loðnan að hluta eða öllu sem var fyrir norðan í fyrri mælingum? Því er mjög mikilvægt að mæla þar líka aftur,“ svarar forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Staðsetningu leitarskipanna á Austfjarðamiðum má sjá hér á rauntíma.