Innlent

Ógnaði starfsmönnum skyndibitastaðar með eggvopni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla handtók manninn skömmu eftir ránstilraunina.
Lögregla handtók manninn skömmu eftir ránstilraunina. Vísir/Vilhelm

Maður ógnaði starfsmönnum á skyndibitastað í austurhluta borgarinnar með eggvopni um kl. 19.30 en náði engum fjármunum. Hann hefur verið handtekinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en Fréttablaðið sagði frá því fyrr í kvöld að vopnað rán hefði verið framið á KFC í Sundagörðum.

Gerandinn var í mjög annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn skömmu eftir ránstilraunina, samkvæmt tilkynningu lögreglunnar. Hann gistir nú fangageymslur lögreglu og verður rætt við hann á morgun.

Starfsfólk staðarins er sagt hafa fengið sálræna aðstoð hjá lögreglu en einn þarfnaðist aðhlynningar á slysadeild vegna áfallsins.

Engin líkamleg meiðsl urðu á fólki.

Starfsmaður KFC sem ræddi við Fréttablaðið sagðist hafa verið að störfum þegar hann heyrði hátt öskur. Þá sá hann grímuklæddan mann ógna starfsmanni á kassa. Viðkomandi hefði verið í miklu áfalli eftir atburðinn.

„Hún er alveg í rústi eftir þetta. Hún sagði að maðurinn hafi staðið alveg mjög nálægt henni með hnífinn.“

Þrátt fyrir atburðinn lokaði staðurinn ekki og héldu starfsmenn almennt áfram störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×