Innlent

Lögðu hald á plöntur og búnað til fíkni­efna­fram­leiðslu

Sylvía Hall skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af manni í Hafnarfirði skömmu eftir klukkan tíu í gærkvöldi vegna framleiðslu fíkniefna. Samkvæmt dagbók lögreglu var lagt hald á plöntur og búnað til framleiðslunnar.

Þá var nóttin annasöm í umferðareftirliti en afskipti voru höfð að níu ökumönnum samkvæmt lögreglu. Skömmu fyrir klukkan níu var einn stöðvaður í Garðabæ grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Á tólfta tímanum var annar ökumaður stöðvaður í Grafarvogi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og svo tveir til viðbótar í Árbæ, en í báðum tilvikum þar var ökumaður án ökuréttinda.

Fjórir voru stöðvaðir í Breiðholti, þar af þrír á þriðja tímanum í nótt og reyndust þeir allir án ökuréttinda. Tveir höfðu ekki gild ökuréttindi en hinir tveir höfðu verið sviptir og eru grunaðir um ítrekaðan akstur eftir sviptingu. Annar þeirra er einnig grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Einn var svo stöðvaður eftir hraðamælingu á Reykjanesbraut en sá hafði mælst á 117 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80. Ökumaðurinn játaði brotið og óskaði eftir greiðsluseðli, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×