Stjórnvöld og atvinnulífið hyggjast ráðast í sameiginlegt átak til að fá landsmenn til að versla við innlend fyrirtæki. Átakið hefur fengið heitið „Íslenskt - gjöriði svo vel.“ Ríkið leggur 100 milljónir til verkefnisins en hluti atvinnulífsins er ekki tilgreindur í yfirlýsingu þeirra sem að átakinu standa.
Átakið er sagt liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Markmiðið sé þannig að vinna gegn efnahagslegum samdrætti með það fyrir augum að „lágmarka áhrifin á atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma,“ eins og það er orðað á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Að samningnum standa auk ráðuneytisins Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands.
Tilgangur átaksins er sagður eftirfarandi:
„[A]ð móta og hrinda í framkvæmd sameiginlegu kynningarátaki sem miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Með því verði lögð áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og þeirri hringrás sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.“
Fyrrnefndar 100 milljónir sem stjórnvöld leggja til málsins eiga að renna í hönnun, framleiðslu og birtingu kynningarefnis.