Hagsmuna fjármálafyrirtækja gætt en heimilin sniðgengin Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason skrifa 24. mars 2020 13:00 Ríkisstjórnin kynnti það sem hún kallaði „víðtækustu efnahagsaðgerðir sögunnar” á laugardaginn, en í þeim var lítið fjallað um heimilin. Að því sögðu er augljóst að allar aðgerðir hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á heimili landsins, en nú er ekki nóg að huga að þeim með óbeinum hætti, það þarf einnig að gæta sérstaklega að hagsmunum heimilanna ekki síður en hagsmunum atvinnulífs og fjármálafyrirtækja. Það sem vel er gert Allar aðgerðir hafa með einum eða öðrum hætt áhrif á heimilin. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að fólk haldi vinnu sinni og tekjum, þannig að öll innspýting í atvinnulífið er af hinu góða svo lengi sem það er tryggt að hún skili sér þangað með þeim hætti sem hún á að gera. Einnig verður að nefna frumvarp félags- og barnamálaráðherra um að þeim sem missi vinnuna að hluta séu tryggðar allt að 80% tekna sinna. Það var einnig ánægjulegt að sjá hversu skjótt var brugðist við athugasemdum um lægstu laun þannig að þau væru tryggð að fullu. Þetta frumvarp er nær fordæmalaust og gríðarlega mikilvægt fyrir heimilin í landinu. Vaxtalækkanir Seðlabankans eru líka mjög jákvæðar og munu svo sannarlega koma heimilunum og okkur öllum til góða. Það var líka greinilegt að reynt hefur verið að hugsa til framtíðar eins og hægt er þegar enginn veit í raun hvernig hún verður. Allt er þetta jákvætt og jafnvel mjög gott, en engu að síður verður ekki hjá því komist að benda á ágalla sem svo auðvelt væri að lagfæra ef vilji væri fyrir hendi. Endurómur bankahrunsins Hagsmunasamtök heimilanna vilja standa með stjórnvöldum í aðgerðum þeirra. Við höfum verið að knýja á við ríkisstjórnina um að fá uppgjör vegna afleiðinga bankahrunsins 2008 með Rannsóknarskýrslu heimilanna, en álítum að nú eigi að leggja allan ágreining til hliðar og vinna saman að því að koma Íslandi í gegnum það sem framundan er, með hagsmuni allra að leiðarljósi. Á árunum frá hruni hafa Hagsmunasamtökin sankað að sér gríðarlega mikilli vitneskju um réttindi neytenda á fjármálamarkaði og því hvaða afleiðingar, bæði beinar og óbeinar, aðgerðir stjórnvalda geta og hafa haft á heimili landsins, afleiðingar sem stjórnvöld hafa allan þennann tíma vilja loka augunum fyrir. Þegar litið er til baka og afleiðingar vanhugsaðra aðgerða þáverandi stjórnvalda skoðaðar, er alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, skuli enn og aftur kalla til fulltrúa hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja án þess að kalla til jafnvægis fulltrúa heimilanna sem þó eru grunnstoðir þjóðfélagsins. Sameiginleg yfirlýsing Ríkisstjórnar Íslands, Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja og Hagsmunasamtaka lífeyrissjóða frá 21. mars, staðfestir að engin ástæða þótti til að kalla fulltrúa heimilanna til á meðan fjármálaöflin véluðu um hagsmuni þeirra og afkomu. Ríkisstjórn Íslands þarf að svara því af hverju heimilin ættu að treysta þessum aðilum, sem fyrst og fremst gæta eigin hagsmuna og fjármuna, fyrir hagsmunum sínum? Eftir bankahrunið, sem var í raun mikið umfangsminna en þetta “hrun” virðist ætla að verða, misstu að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur heimili sín, eða um 15% fjölskyldna landsins. Það er fyrir utan allar aðrar þrengingar sem heimilin gengu í gegnum án þess að þær hafi endað í heimilismissi. Margar fjölskyldur flúðu land og það ásamt fjölda árangurslausra fjárnáma segir sína sögu. 135.000 árangurlaus fjárnám eru skelfilegur vitnisburður um hvernig til tókst, því það eru tugir þúsunda einstaklinga á bakvið þá tölu, hjá 360.000 þúsund manna þjóð. Þessar skelfingar, sem heimilin hafa ekki enn bitið úr nálinni með, urðu vegna þess að þrjú einkafyrirtæki höguðu sér eins og Ísland væri spilavíti og töpuðu leiknum. Þá voru það þrjú fyrirtæki en núna eru öll fyrirtæki landsins undir og heilu atvinnugreinarnar. Ótti fólks er skiljanlegur, áþreifanlegur og það er því miður, full ástæða fyrir honum. Vantraustið sem ennþá er á Alþingi, kerfið og bankana eftir seinasta hrun ætti að vera næg ástæða fyrir því að núverandi ríkisstjórn hafi samráð við Hagsmunasamtök heimilanna (HH) um aðgerðir fyrir heimilin alveg eins og ríkisstjórnin kallaði strax á Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækjanna (SFF) þegar farið var að ræða leiðir til lausna. Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja einu ráðgjafar fjármálaráðherra Núverandi fjármálaráðherra fellur því miður í nákvæmlega sömu gryfju og forveri hans í embætti eftir hrun; hann kallar á Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF). Munurinn er þó sá að núverandi ástand er ekki fjármálafyrirtækjunum að kenna eins og þá, en þau (SFF) eru engu að síður í harðri hagsmunagæslu fyrir sína eigin hagsmuni. Áhrif Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja eru augljós í þessum aðgerðapakka stjórnvalda, m.a. í forgangsröðun hans og ýmsu sem ekki verður fjallað um í þessari grein. Það stingur t.d. í augun að nánast einu “lausnirnar” í honum fyrir heimilin eru eingreiðsla barnabóta og það að fólk megi taka út séreignasparnað! Af hverju á fólk að þurfa að taka út séreignasparnað? Það að taka út séreignasparnað er aðgerð sem kemur í bakið á fólki síðar. Ef aðgerðirnar fyrir fyrirtækin og fjármálafyrirtækin eru líka fyrir heimilin, eins og stjórnvöld vilja halda fram, af hverju er þá gert ráð fyrir því að fólk eigi eftir að þurfa á því að halda að taka út séreignarsparnaðinn sinn? Aðgerðirnar fyrir heimilin eiga einmitt að miða að því að enginn þurfi að grípa til þannig ráðstöfunar sem er ekkert annað en yfirfærsla á fjármagni frá einstaklingum og heimilum beint til fjármálafyrirtækjanna. Núna er ekki um annað að ræða en að fjármálafyrirtækin taki líka á sig það efnahagslega högg sem hugsanlega er framundan. Í raun ættu þau að taka allt höggið á sig en heimilin ekkert. Fjármálafyrirtækin eiga ekkert inni hjá heimilum landsins, þau ollu síðasta hruni og hafa svo HAGNAST um nær 700 milljarða sem hafa að mestu komið beint frá heimilunum. Ef allur þessi gríðarlegi hagnaður hefur ekki gefið bönkunum svigrúm til að taka á sig meira en almenningur, sem þeir hafa blóðmjólkað undanfarin ár, væri réttast að reka alla stjórnendur þeirra fyrir vanhæfni. En þrátt fyrir allt eru það einmitt Hagsmunasamtök þeirra, fjármálafyrirtækjanna, sem ríkisstjórnin kallar til og þau eru ekki lengi að koma baráttumálum sínum í gegn. Núna á t.d. að nýta ástandið til að afnema bankaskattinn gegn því að bankarnir fresti því aðeins að geta gengið fram af fullri hörku gegn þeim sem höllustum fæti standa, væntanlega eftir að hafa líka hirt af þeim séreignarsparnaðinn þeirra. Alvöru aðgerð væri að fella niður allar greiðslur í 3 mánuði, eða lengur ef þarf, og halda svo áfram þar sem frá var horfið með því að lengja lánin sem því nemur, án þess að þessum greiðslum eða vöxtum þeirra væri bætt á höfðustólinn. „Gamla tuggan” um verðtrygginguna Hagsmunasamtökin hafa í gegnum árum fundið skýrt fyrir “fordómum” stjórnsýslunnar og stjórnvalda. Þar virðast margir líta svo á að við séum alltaf með “sömu gömlu tugguna” um afnám verðtryggingar og að á meðan við höfum ekki eitthvað “nýtt” fram að færa, sé lítil ástæða til að tala við okkur. Því miður staðfestir hunsun stjórnvalda undanfarna daga og vikur, að þetta viðhorf sé ríkjandi, sem er verulega sorglegt og í raun hreinlega heimskulegt. Hagsmunasamtök heimilanna eru fjölmennustu fulltrúar heimilanna á landinu og þau einu sem varið hafa hagsmuni neytenda á fjármálamarkaði. Þau hafa á rúmum 11 árum viðað að sér ógrynni af vitneskju og reynslu þannig að sennilega er hvergi á landinu að finna jafn yfirgripsmikla þekkingu á málefnum neytenda á fjármálamarkaði, eins og innan þeirra vébanda. Þá þekkingu þurfa stjórnvöld að nýta sér í því fordæmalausa ástandi sem núna er að skapast. Ástæður þess að „gamla tuggan” um afnám verðtryggingar eða það sé að minnsta kosti sett þak á hana við núverandi aðstæður, sé ennþá miðpunktur baráttu samtakanna fyrir heimilin, eru afskaplega einfaldar: 1. Verðtrygging á lánum heimilanna er ennþá í gildi og á meðan svo er munu Hagsmunasamtök heimilanna berjast fyrir afnámi hennar. 2. Verðtrygging lána heimilanna veldur bæði heimilunum og hagkerfinu gríðarlegum skaða. 3. ENGIN haldbær rök hafa verið færð fyrir því að afnema hana EKKI á lánum heimilanna. Um lið 1. er lítið að segja en það er ástæða til að skoða liði 2. og 3. því mýturnar um verðtrygginguna eru margar. Bankarnir eru gríðarlega fjársterkir og þeir halda úti fólki á ofurlaunum innan Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækjanna til að halda hagsmunum þeirra á lofti með öllum ráðum því þeir vilja passa þessa gullgæs sína vel. Á móti þeim standa svo Hagsmunasamtök heimilanna, sjálfboðaliðasamtök, sem þurfa að berjast fyrir því að koma málstað heimilanna á framfæri á meðan Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja hafa beinan aðgang að fjármálaráðherra og eru alltaf kölluð til ráðgjafar, þrátt fyrir skelfilega sögu, þegar taka skal ákvarðanir sem hafa bein áhrif á hagkerfið og heimilin. Aðstöðumunurinn á milli fjármálafyrirtækjanna og heimilanna er stjarnfræðilegur. Það er líka þyngra en tárum taki hve skilningur fjármálaráðherra á verðtryggingunni virðist vera takmarkaður sé litið til svara hans við fyrirspurn á Alþingi þann 23. mars 2020, þar sem hann talaði um að fólk “nyti skjóls af verðtryggingunni”. Hann sagði fleira við þetta tækifæri sem er bæði illskiljanlegt og rangt en við getum því miður ekki svarað því öllu hér. Við bendum hins vegar á þetta stórgóða blogg Guðmundar Ásgeirssonar þar sem villur fjármálaráðherra eru raktar. Verðtrygging lána heimilanna veldur gríðarlegum skaða Í stuttu máli má segja að námskeiðið „Verðtrygging 101“ líti svona út: ·Verðtrygging á lán heimilanna gerir það að verkum að ráðandi öfl á fjármálamarkaði hafa ekki hag af því að halda verðbólgu í skefjum og raunar græða þau á því að halda verðbólgunni hárri, sem er afar neikvæður hvati. ·Á meðan lán heimilanna eru verðtryggð þá hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands ekki tilætluð áhrif. -Stýrivaxtaákvörðunarvaldið, sem er sama verkfæri og aðrir seðlabankar nota til að stýra sínum hagkerfum, bítur ekki vegna þess að lánþegar verðtryggðra lána finna ekki fyrir vaxtahækkununum vegna þess að verðtryggingin og “annuitetið” í þeim lánar lántakanum fyrir vaxtahækkuninni. ·Verðtrygging verður aftur á móti að vera á milli fagfjárfesta og viðkomandi ríkis eins og er í öllum þeim löndum sem við miðum okkur almennt við. -Það er grunnurinn að því að halda verðbólgunni í skefjum í öðrum löndum. Á meðan lán heimilanna eru verðtryggð hagnast þessir aðilar á hárri verðbólgu. Ef hins vegar lán á milli ríkis og fagfjárfesta eru verðtryggð gera þessir aðilar allt sem þeir geta til að halda henni niðri. -Ef ríkið telur þörf á framboði verðtryggðra fjárfestingarkosta á það sjálft að sjá fjármálamörkuðum fyrir þeim, en ekki velta því hlutverki yfir á heimilin sem aldrei hafa óskað eftir því. ·Verðtrygging neytendalána veldur beinlínis hærri verðbólgu og viðheldur hækkunum lengur en ella, sem er ekki aðeins skaðlegt þeim sem greiða af verðtryggðum lánum heldur líka af óverðtryggðum lánum, leigusamningum, neytendum almennt og samfélaginu öllu. Þetta er alls ekki svo flókið og mjög augljóst þegar þetta er skoðað. Fyrir þá sem vilja vita meira má líka benda á frábæran fyrirlestur Jacky Mallett, lektors við Háskólann í Reykjavík en hennar sérsvið er að rannsaka kerfi og greina víxlverkun þeirra. Hún rannsakaði verðtrygginguna og þessi stutti fyrirlestur skýrir skaðsemi hennar vel. Verðtryggingin hefur áhrif á allt. Hún hefur áhrif á húsnæðislán bæði verðtryggð og óverðtryggð. Hún hefur gríðarleg áhrif á leiguverð því leiga er oftast verðtryggð, ásamt því að hækka vöruverð á nauðsynjavörum heimilanna. Hún deyfir líka verðvitund okkar, alveg sama hversu „fjármálalæs“ við erum, því við vitum aldrei hvað neitt kostar frá degi til dags, eða hvað við munum hafa á milli handanna, ef eitthvað, þegar við erum búin að greiða af lánunum okkar. Verðtryggingin er svikamilla - neytandinn tapar alltaf Verðtryggingin er einhverskonar “ómöguleiki” þar sem neytandinn tapar alltaf því þeir sem hagnast á henni hafa alla þræði í hendi sér og breyta bara leikreglunum þegar þeim hentar. Sem dæmi um það má nefna stórfrétt sem var falin á innsíðum Morgunblaðsins núna um helgina, um að nú væri Hagstofan að skoða það að breyta því hvernig hún mælir verðbólgu. Kórónuveiran hefur haft gríðarleg áhrif á samgöngur og eins og öllum er kunnugt hefur flug nær stöðvast. Með því hefur hefðbundið framboð flugmiða farið úr skorðum og verðlagningin um leið. Flugfargjöld eru meðal undirliða vísitölunnar við verðbólgumælingar og samkvæmt því ætti flugfargjaldaliður vísitölunnar að lækka og hafa samsvarandi áhrif til lækkunar á verðtryggðum lánum. Þær upplýsingar fengust hins vegar frá Hagstofunni að nú væri í skoðun hvernig mælingin yrði framkvæmd að þessu sinni. Á mannamáli þýðir þetta að í stað þess að leyfa flugfargjaldalið vísitölunnar að falla niður í núll eins og hann ætti núna með réttu að gera, er Hagstofan raunverulega að velta því fyrir sér að breyta verðlagsmælingum, væntanlega með því að taka flugfargjöld út úr mælingunni og jafnvel fleira sem hefur dregist saman eins og hótelgistingu svo dæmi sé tekið. Þetta jafngildir einfaldlega því að falsa auknar skuldir á heimilin og brjóta þannig alla verðtryggða samninga í landinu þar sem neytendur hafa skrifað undir skuldbindingar sem eiga að miðast við almennt verðlag, að flugfargjöldum og hótelgistingu meðtöldum. Enginn þeirra neytenda hefur samþykkt að Hagstofan megi breyta þeim forsendum eftir á. Þessi látlausa frétt afhjúpar í raun kuklið sem verðtryggingin byggist á og sýnir fram á að vísitalan sem notuð er til verðtryggingar er ekki raunverulegur mælikvarði á neitt. Þetta er ekkert annað en reiknileikfimi í Excel-skjali þar sem fiktað er í forsendum til að fá “æskilega” útkomu, en sú “æskilega” útkoma er aldrei til hagsbóta fyrir heimilin. Á góðri íslensku kallast svona fyrirkomulag „svikamylla“. Hver stendur fyrir þessari svikamillu? Er það forstjóri Hagstofunnar sem ákveður þetta upp á sitt einsdæmi eða er það Seðlabankastjóri sem biður hann um þetta eða er það fjármálaráðherra sem er yfir þessu öllu? Þessum spurningum þarf að fá svör við, núna! Engin haldbær rök eru til fyrir verðtryggingu á lánum heimilanna Það eru engin rök fyrir því að halda áfram að leyfa verðtryggingu á lánum heimilanna. Samt er þess stöðugt krafist að þeir sem vilja afnema hana komi fram með ný og betri rök. Þetta heitir að snúa hlutunum á haus. Rökin gegn verðtryggingunni liggja öll fyrir og hafa margoft verið rakin. Einu “rökin” með verðtryggingu lána heimilanna eru mýtan um að þá muni hagkerfið fara á hausinn. Ef svo væri er fólkið sem stjórnar þessu séríslenska hagkerfi algjörlega óhæft, því engin önnur þjóð þarf að blóðmjólka þegna sína með þessum hætti. Með þessum rökum þeirra fylgir önnur mýta um íslensku krónuna, en hún er ekki vandamálið heldur stjórnunin á krónunni og hagkerfinu. NÚNA er lag til að afnema verðtrygginguna með öllu! Vextir hafa aldrei verið lægri og aðstæður aldrei betri en nákvæmlega núna. Hagsmunasamtök heimilanna skora á huldufólkið að gefa sig fram „Kerfi“ gerir ekkert. Alveg sama hvort það er stjórnkerfi, bankakerfi, fjármálakerfi, skólakerfi eða heilbrigðiskerfi, ekkert af þessum “kerfum” virka nema af því að innan þeirra eru einstaklingar sem halda þeim gangandi. „Stjórnkerfið“ tekur enga ákvörðun nema af því að einhver einstaklingur, einn eða fleiri, taki í raun ákvörðunina og núna þurfa þær persónur að stíga fram og standa fyrir máli sínu, í stað þess að fela sig eins og einhverjar skræfur á bakvið “kerfið”. Það eru ástæður fyrir því að engu fæst svarað varðandi heimilin í þessar krísu sem við nú förum í gegnum. Það eru ástæður fyrir því að ekki er búið að setja a.m.k. þak á verðtrygginguna við t.d. 3,5%. Það er ástæða fyrir því að Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækjanna eru kölluð að öllum ákvörðunum en ekki Hagsmunasamtök heimilanna. Ástæðurnar eru þær að á bak við tjöldin sitja hagsmunaverðir, einstaklingar á ofurlaunum, í felum fyrir okkur öllum en með fullan aðgang að ráðamönnum. Þar er þeim aldrei mótmælt, kannski vegna þess að meðvirkni íslenskra stjórnmálamanna með fjármálakerfinu er orðin svo sjálfsögð og inngróinn, að það bara “má ekki” mótmæla. Eða vegna þess að þekking stjórnmálamannanna er bara ekki nógu mikil til að mótmæla þeim? “Þeir” (þ.e. fjármálaöflin) þurfa því aldrei að standa fyrir máli sínu af neinni alvöru. Hver er það sem ákveður að kalla ekki „að borðinu“ þá sem eru að vinna að hagsmunum heimilanna? Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi geta ákvarðanir sem nú eru teknar haft áhrif á heimilin til langs tíma þannig að þessari spurningu þarf að svara. Þetta mikla samráð við Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækjanna virðist allt vera unnið í fjármálaráðuneytinu, er það þá Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra einn sem ræður þessu? Eru þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sammála þessu „verklagi“? Eru þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins sammála þessu „verklagi“? Eru þingmenn og ráðherrar Vinstri Grænna sammála þessu „verklagi“? Er forsætisráðherra sammála þessu „verklagi“? Og hvað segja þeir flokkar sem eru utan ríkisstjórnarinnar við þessu „verklagi“? Svörin við þessari spurningu, eða jafnvel svarleysi, getur sagt okkur mikið um það hvaða stjórnmálamenn standi með heimilunum. Hagsmunasamtök heimilanna beina eftirfarandi til forsætisráðherra: -Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að fá vita hverjir það eru sem taka ákvarðanir um að kalla ekki til þá sem eru að vinna að hagsmunum heimilanna í þeim fordæmalausu aðstæðum sem uppi eru og hvaða rök eru fyrir því. -Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á upplýsingar um hvaða einstaklingar eða samtök það eru sem standa gegn afnámi eða þaki verðtryggingar lána heimilanna. Auk þess förum við fram á að fá að sjá rök þessara einstaklinga eða samtaka svo hægt sé að svara þeim og taka umræðuna um þessar afdrifaríku ákvarðanir sem geta haft gríðarleg áhrif á afkomu heimilanna. -Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að fá sama aðgang að öllum ákvörðunum og Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja hafa til verja sína hagsmuni, til að tala máli heimilanna. Samstaða á erfiðum tímum Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að koma friðsamlega að málum. Þau sendu frá sér yfirlýsingu 11. mars þar sem þau buðu fram aðstoð sína og þegar engin viðbrögð bárust við henni sendu þau öllum ráðherrum og alþingismönnum bréf 19. mars. Það bréf var ekki sent til fjölmiðla því við vildum reyna að nálgast málin af yfirvegun og skynsemi, án upphrópana. Núna höfum við birt þetta bréf á heimasíðu okkar fyrir þá sem það vilja lesa, þar sem við höfum engin viðbrögð fengið frá stjórnvöldum. Samstarfsvilji okkar er augljós og sem betur fer er fólk innan ríkisstjórnarflokkanna sem fylgir okkur að málum, en andstaða Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja er mikil og völd þeirra einnig. Við höfum líka reynt að stappa stáli í okkar félagsmenn sem margir eru hræddir og upplifa sig eina í “þögninni”. Í fréttabréfi sem við sendum frá okkur grófum við djúpt eftir trú okkar á að stjórnvöld hefðu lært eitthvað, þó ekki væri nema eitthvað pínulítið af afleiðingum síðasta hruns fyrir heimili landsins. Þar sem ÞAU, ríkisstjórn og ráðherrar á þeim tíma, klúðruðu málum með skelfilegum hætti með þjónkun sinni við Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja. Hagsmunasamtök heimilanna munu fylgja því fast eftir að heimilum landsins verði ekki fórnað á þeirra vakt! Við viljum leggja “eldri mál” til hliðar á meðan tekist er á við ástandið sem nú blasir við og við bjóðum samstarf og alla þá þekkingu sem við höfum fram að færa, fyrir ríkisstjórnina að nýta sér. Við erum til í að leggja við nótt sem nýtan dag heimilunum til góða. En við erum ekki lengur til að láta hunsa okkur. Við munum ekki standa lengur á hliðarlínunum í von um að “eitthvað sé að gerast”. Við viljum fá að standa fyrir máli okkar og láta “ykkur” standa fyrir máli ykkar. Við í Hagsmunasamtökum heimilanna værum til í að mæta ríkisstjórninni ásamt Hagsmunasamtökum fjármálafyrirtækja hvar sem er til að fara yfir skaðsemi verðtryggingarinnar, en það er ekki endalaust hægt að berjast við “andlitslausa” aðila sem hafa jafn gríðarleg áhrif og aðgengi að ríkisstjórninni og fjármálaráðherra og raun ber vitni, en þurfa aldrei að svara fyrir neitt opinberlega. Það er við hæfi að enda þetta á tilvitnum í grein Styrmis Gunnarssonar fv. ritstjóra í nýjasta helgarblaði Morgunblaðsins: „Að tala við einstök hagsmunasamtök atvinnulífsins en ekki Hagsmunasamtök heimilanna er eins og ef stjórnmálaflokkur, sem vildi fjalla um lífskjarasamningana, kallaði einungis til talsmann frá Samtökum atvinnulífsins en ekki frá verkalýðsfélögunum. Öllum getur orðið á en þá er að bæta úr því og eðlilegt að ríkisstjórnin kalli eftir áliti Hagsmunasamtaka heimilanna ekki síður en annarra, sem eiga hagsmuna að gæta.“ Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að þau eru tilbúin til samstarfs því það hlýtur að vera okkur öllum til hagsbóta og auka traust, að vera í sama liði og vinna saman að því sem framundan er. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir og varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ásthildur Lóa Þórsdóttir Mest lesið Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Fyrstu jólin eftir ástvinamissi Anna Sigurðardóttir Skoðun „Þetta er ekki hægt, en það verður samt að gera þetta“ Arnar Þór Jónsson Skoðun Atvinnumál fatlaðra Ína Valsdóttir Skoðun Mýtan um sæstreng! Andrés Pétursson Skoðun Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun Hvað er borgaraleg pólitík? Guðjón Heiðar Pálsson Skoðun Bíp Bíp Bíp Ágúst Mogensen Skoðun Það er ekki nóg að vera klár stelpa/strákur/stálp Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Milljónerí Hannes Örn Blandon Skoðun Skoðun Skoðun Fyrstu jólin eftir ástvinamissi Anna Sigurðardóttir skrifar Skoðun Skyndihjálp: Lykillinn að öruggara samfélagi Hildur Vattnes Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Það er ekki nóg að vera klár stelpa/strákur/stálp Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Kosningum lokið og hvað nú? Ólafur Ágúst Hraundal skrifar Skoðun „Þetta er ekki hægt, en það verður samt að gera þetta“ Arnar Þór Jónsson skrifar Skoðun Mýtan um sæstreng! Andrés Pétursson skrifar Skoðun Kvennaárið 2025 Drífa Snædal skrifar Skoðun Bíp Bíp Bíp Ágúst Mogensen skrifar Skoðun Samviskufrelsi heilbrigðisstarfsmanna ekki vandamál þegar kemur að dánaraðstoð Ingrid Kuhlman skrifar Skoðun Milljónerí Hannes Örn Blandon skrifar Skoðun Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir skrifar Skoðun Hvað er borgaraleg pólitík? Guðjón Heiðar Pálsson skrifar Skoðun Ríkisstjórn verðmætasköpunar Sigríður Mogensen skrifar Skoðun Þorlákshöfn - byggð á tímamótum Anna Kristín Karlsdóttir skrifar Skoðun Hagsmunamál fyrirtækjanna í stjórnarsáttmála Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Er lausnin í leikskólamálum að grafa undan atvinnuþátttöku og jafnrétti? Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar Skoðun Lýðræði hinna sterku Jón Páll Hreinsson skrifar Skoðun Bleikir hvolpar Darri Gunnarsson,Rósa Líf Darradóttir skrifar Skoðun Lifandi dauð! Kolbrún Halldórsdóttir skrifar Skoðun Það hafa allir sjötta skilningarvit Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Skoðun mín á alþingiskosningum 2024 Valgerður Bára Bárðardóttir skrifar Skoðun Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar Skoðun Skautaíþróttir í Reykjavík í dauðafæri - kýlum á stækkun Skautahallarinnar Bjarni Helgason skrifar Skoðun Hlustið á fólkið í skólunum? Dóra Þorleifsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægasta atkvæðið Kristbjörg Þórisdóttir skrifar Skoðun Nálgunarbann Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason skrifar Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir skrifar Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Snúum samfélagi af rangri leið Finnbjörn A. Hermansson skrifar Sjá meira
Ríkisstjórnin kynnti það sem hún kallaði „víðtækustu efnahagsaðgerðir sögunnar” á laugardaginn, en í þeim var lítið fjallað um heimilin. Að því sögðu er augljóst að allar aðgerðir hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á heimili landsins, en nú er ekki nóg að huga að þeim með óbeinum hætti, það þarf einnig að gæta sérstaklega að hagsmunum heimilanna ekki síður en hagsmunum atvinnulífs og fjármálafyrirtækja. Það sem vel er gert Allar aðgerðir hafa með einum eða öðrum hætt áhrif á heimilin. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að fólk haldi vinnu sinni og tekjum, þannig að öll innspýting í atvinnulífið er af hinu góða svo lengi sem það er tryggt að hún skili sér þangað með þeim hætti sem hún á að gera. Einnig verður að nefna frumvarp félags- og barnamálaráðherra um að þeim sem missi vinnuna að hluta séu tryggðar allt að 80% tekna sinna. Það var einnig ánægjulegt að sjá hversu skjótt var brugðist við athugasemdum um lægstu laun þannig að þau væru tryggð að fullu. Þetta frumvarp er nær fordæmalaust og gríðarlega mikilvægt fyrir heimilin í landinu. Vaxtalækkanir Seðlabankans eru líka mjög jákvæðar og munu svo sannarlega koma heimilunum og okkur öllum til góða. Það var líka greinilegt að reynt hefur verið að hugsa til framtíðar eins og hægt er þegar enginn veit í raun hvernig hún verður. Allt er þetta jákvætt og jafnvel mjög gott, en engu að síður verður ekki hjá því komist að benda á ágalla sem svo auðvelt væri að lagfæra ef vilji væri fyrir hendi. Endurómur bankahrunsins Hagsmunasamtök heimilanna vilja standa með stjórnvöldum í aðgerðum þeirra. Við höfum verið að knýja á við ríkisstjórnina um að fá uppgjör vegna afleiðinga bankahrunsins 2008 með Rannsóknarskýrslu heimilanna, en álítum að nú eigi að leggja allan ágreining til hliðar og vinna saman að því að koma Íslandi í gegnum það sem framundan er, með hagsmuni allra að leiðarljósi. Á árunum frá hruni hafa Hagsmunasamtökin sankað að sér gríðarlega mikilli vitneskju um réttindi neytenda á fjármálamarkaði og því hvaða afleiðingar, bæði beinar og óbeinar, aðgerðir stjórnvalda geta og hafa haft á heimili landsins, afleiðingar sem stjórnvöld hafa allan þennann tíma vilja loka augunum fyrir. Þegar litið er til baka og afleiðingar vanhugsaðra aðgerða þáverandi stjórnvalda skoðaðar, er alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, skuli enn og aftur kalla til fulltrúa hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja án þess að kalla til jafnvægis fulltrúa heimilanna sem þó eru grunnstoðir þjóðfélagsins. Sameiginleg yfirlýsing Ríkisstjórnar Íslands, Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja og Hagsmunasamtaka lífeyrissjóða frá 21. mars, staðfestir að engin ástæða þótti til að kalla fulltrúa heimilanna til á meðan fjármálaöflin véluðu um hagsmuni þeirra og afkomu. Ríkisstjórn Íslands þarf að svara því af hverju heimilin ættu að treysta þessum aðilum, sem fyrst og fremst gæta eigin hagsmuna og fjármuna, fyrir hagsmunum sínum? Eftir bankahrunið, sem var í raun mikið umfangsminna en þetta “hrun” virðist ætla að verða, misstu að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur heimili sín, eða um 15% fjölskyldna landsins. Það er fyrir utan allar aðrar þrengingar sem heimilin gengu í gegnum án þess að þær hafi endað í heimilismissi. Margar fjölskyldur flúðu land og það ásamt fjölda árangurslausra fjárnáma segir sína sögu. 135.000 árangurlaus fjárnám eru skelfilegur vitnisburður um hvernig til tókst, því það eru tugir þúsunda einstaklinga á bakvið þá tölu, hjá 360.000 þúsund manna þjóð. Þessar skelfingar, sem heimilin hafa ekki enn bitið úr nálinni með, urðu vegna þess að þrjú einkafyrirtæki höguðu sér eins og Ísland væri spilavíti og töpuðu leiknum. Þá voru það þrjú fyrirtæki en núna eru öll fyrirtæki landsins undir og heilu atvinnugreinarnar. Ótti fólks er skiljanlegur, áþreifanlegur og það er því miður, full ástæða fyrir honum. Vantraustið sem ennþá er á Alþingi, kerfið og bankana eftir seinasta hrun ætti að vera næg ástæða fyrir því að núverandi ríkisstjórn hafi samráð við Hagsmunasamtök heimilanna (HH) um aðgerðir fyrir heimilin alveg eins og ríkisstjórnin kallaði strax á Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækjanna (SFF) þegar farið var að ræða leiðir til lausna. Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja einu ráðgjafar fjármálaráðherra Núverandi fjármálaráðherra fellur því miður í nákvæmlega sömu gryfju og forveri hans í embætti eftir hrun; hann kallar á Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF). Munurinn er þó sá að núverandi ástand er ekki fjármálafyrirtækjunum að kenna eins og þá, en þau (SFF) eru engu að síður í harðri hagsmunagæslu fyrir sína eigin hagsmuni. Áhrif Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja eru augljós í þessum aðgerðapakka stjórnvalda, m.a. í forgangsröðun hans og ýmsu sem ekki verður fjallað um í þessari grein. Það stingur t.d. í augun að nánast einu “lausnirnar” í honum fyrir heimilin eru eingreiðsla barnabóta og það að fólk megi taka út séreignasparnað! Af hverju á fólk að þurfa að taka út séreignasparnað? Það að taka út séreignasparnað er aðgerð sem kemur í bakið á fólki síðar. Ef aðgerðirnar fyrir fyrirtækin og fjármálafyrirtækin eru líka fyrir heimilin, eins og stjórnvöld vilja halda fram, af hverju er þá gert ráð fyrir því að fólk eigi eftir að þurfa á því að halda að taka út séreignarsparnaðinn sinn? Aðgerðirnar fyrir heimilin eiga einmitt að miða að því að enginn þurfi að grípa til þannig ráðstöfunar sem er ekkert annað en yfirfærsla á fjármagni frá einstaklingum og heimilum beint til fjármálafyrirtækjanna. Núna er ekki um annað að ræða en að fjármálafyrirtækin taki líka á sig það efnahagslega högg sem hugsanlega er framundan. Í raun ættu þau að taka allt höggið á sig en heimilin ekkert. Fjármálafyrirtækin eiga ekkert inni hjá heimilum landsins, þau ollu síðasta hruni og hafa svo HAGNAST um nær 700 milljarða sem hafa að mestu komið beint frá heimilunum. Ef allur þessi gríðarlegi hagnaður hefur ekki gefið bönkunum svigrúm til að taka á sig meira en almenningur, sem þeir hafa blóðmjólkað undanfarin ár, væri réttast að reka alla stjórnendur þeirra fyrir vanhæfni. En þrátt fyrir allt eru það einmitt Hagsmunasamtök þeirra, fjármálafyrirtækjanna, sem ríkisstjórnin kallar til og þau eru ekki lengi að koma baráttumálum sínum í gegn. Núna á t.d. að nýta ástandið til að afnema bankaskattinn gegn því að bankarnir fresti því aðeins að geta gengið fram af fullri hörku gegn þeim sem höllustum fæti standa, væntanlega eftir að hafa líka hirt af þeim séreignarsparnaðinn þeirra. Alvöru aðgerð væri að fella niður allar greiðslur í 3 mánuði, eða lengur ef þarf, og halda svo áfram þar sem frá var horfið með því að lengja lánin sem því nemur, án þess að þessum greiðslum eða vöxtum þeirra væri bætt á höfðustólinn. „Gamla tuggan” um verðtrygginguna Hagsmunasamtökin hafa í gegnum árum fundið skýrt fyrir “fordómum” stjórnsýslunnar og stjórnvalda. Þar virðast margir líta svo á að við séum alltaf með “sömu gömlu tugguna” um afnám verðtryggingar og að á meðan við höfum ekki eitthvað “nýtt” fram að færa, sé lítil ástæða til að tala við okkur. Því miður staðfestir hunsun stjórnvalda undanfarna daga og vikur, að þetta viðhorf sé ríkjandi, sem er verulega sorglegt og í raun hreinlega heimskulegt. Hagsmunasamtök heimilanna eru fjölmennustu fulltrúar heimilanna á landinu og þau einu sem varið hafa hagsmuni neytenda á fjármálamarkaði. Þau hafa á rúmum 11 árum viðað að sér ógrynni af vitneskju og reynslu þannig að sennilega er hvergi á landinu að finna jafn yfirgripsmikla þekkingu á málefnum neytenda á fjármálamarkaði, eins og innan þeirra vébanda. Þá þekkingu þurfa stjórnvöld að nýta sér í því fordæmalausa ástandi sem núna er að skapast. Ástæður þess að „gamla tuggan” um afnám verðtryggingar eða það sé að minnsta kosti sett þak á hana við núverandi aðstæður, sé ennþá miðpunktur baráttu samtakanna fyrir heimilin, eru afskaplega einfaldar: 1. Verðtrygging á lánum heimilanna er ennþá í gildi og á meðan svo er munu Hagsmunasamtök heimilanna berjast fyrir afnámi hennar. 2. Verðtrygging lána heimilanna veldur bæði heimilunum og hagkerfinu gríðarlegum skaða. 3. ENGIN haldbær rök hafa verið færð fyrir því að afnema hana EKKI á lánum heimilanna. Um lið 1. er lítið að segja en það er ástæða til að skoða liði 2. og 3. því mýturnar um verðtrygginguna eru margar. Bankarnir eru gríðarlega fjársterkir og þeir halda úti fólki á ofurlaunum innan Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækjanna til að halda hagsmunum þeirra á lofti með öllum ráðum því þeir vilja passa þessa gullgæs sína vel. Á móti þeim standa svo Hagsmunasamtök heimilanna, sjálfboðaliðasamtök, sem þurfa að berjast fyrir því að koma málstað heimilanna á framfæri á meðan Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja hafa beinan aðgang að fjármálaráðherra og eru alltaf kölluð til ráðgjafar, þrátt fyrir skelfilega sögu, þegar taka skal ákvarðanir sem hafa bein áhrif á hagkerfið og heimilin. Aðstöðumunurinn á milli fjármálafyrirtækjanna og heimilanna er stjarnfræðilegur. Það er líka þyngra en tárum taki hve skilningur fjármálaráðherra á verðtryggingunni virðist vera takmarkaður sé litið til svara hans við fyrirspurn á Alþingi þann 23. mars 2020, þar sem hann talaði um að fólk “nyti skjóls af verðtryggingunni”. Hann sagði fleira við þetta tækifæri sem er bæði illskiljanlegt og rangt en við getum því miður ekki svarað því öllu hér. Við bendum hins vegar á þetta stórgóða blogg Guðmundar Ásgeirssonar þar sem villur fjármálaráðherra eru raktar. Verðtrygging lána heimilanna veldur gríðarlegum skaða Í stuttu máli má segja að námskeiðið „Verðtrygging 101“ líti svona út: ·Verðtrygging á lán heimilanna gerir það að verkum að ráðandi öfl á fjármálamarkaði hafa ekki hag af því að halda verðbólgu í skefjum og raunar græða þau á því að halda verðbólgunni hárri, sem er afar neikvæður hvati. ·Á meðan lán heimilanna eru verðtryggð þá hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands ekki tilætluð áhrif. -Stýrivaxtaákvörðunarvaldið, sem er sama verkfæri og aðrir seðlabankar nota til að stýra sínum hagkerfum, bítur ekki vegna þess að lánþegar verðtryggðra lána finna ekki fyrir vaxtahækkununum vegna þess að verðtryggingin og “annuitetið” í þeim lánar lántakanum fyrir vaxtahækkuninni. ·Verðtrygging verður aftur á móti að vera á milli fagfjárfesta og viðkomandi ríkis eins og er í öllum þeim löndum sem við miðum okkur almennt við. -Það er grunnurinn að því að halda verðbólgunni í skefjum í öðrum löndum. Á meðan lán heimilanna eru verðtryggð hagnast þessir aðilar á hárri verðbólgu. Ef hins vegar lán á milli ríkis og fagfjárfesta eru verðtryggð gera þessir aðilar allt sem þeir geta til að halda henni niðri. -Ef ríkið telur þörf á framboði verðtryggðra fjárfestingarkosta á það sjálft að sjá fjármálamörkuðum fyrir þeim, en ekki velta því hlutverki yfir á heimilin sem aldrei hafa óskað eftir því. ·Verðtrygging neytendalána veldur beinlínis hærri verðbólgu og viðheldur hækkunum lengur en ella, sem er ekki aðeins skaðlegt þeim sem greiða af verðtryggðum lánum heldur líka af óverðtryggðum lánum, leigusamningum, neytendum almennt og samfélaginu öllu. Þetta er alls ekki svo flókið og mjög augljóst þegar þetta er skoðað. Fyrir þá sem vilja vita meira má líka benda á frábæran fyrirlestur Jacky Mallett, lektors við Háskólann í Reykjavík en hennar sérsvið er að rannsaka kerfi og greina víxlverkun þeirra. Hún rannsakaði verðtrygginguna og þessi stutti fyrirlestur skýrir skaðsemi hennar vel. Verðtryggingin hefur áhrif á allt. Hún hefur áhrif á húsnæðislán bæði verðtryggð og óverðtryggð. Hún hefur gríðarleg áhrif á leiguverð því leiga er oftast verðtryggð, ásamt því að hækka vöruverð á nauðsynjavörum heimilanna. Hún deyfir líka verðvitund okkar, alveg sama hversu „fjármálalæs“ við erum, því við vitum aldrei hvað neitt kostar frá degi til dags, eða hvað við munum hafa á milli handanna, ef eitthvað, þegar við erum búin að greiða af lánunum okkar. Verðtryggingin er svikamilla - neytandinn tapar alltaf Verðtryggingin er einhverskonar “ómöguleiki” þar sem neytandinn tapar alltaf því þeir sem hagnast á henni hafa alla þræði í hendi sér og breyta bara leikreglunum þegar þeim hentar. Sem dæmi um það má nefna stórfrétt sem var falin á innsíðum Morgunblaðsins núna um helgina, um að nú væri Hagstofan að skoða það að breyta því hvernig hún mælir verðbólgu. Kórónuveiran hefur haft gríðarleg áhrif á samgöngur og eins og öllum er kunnugt hefur flug nær stöðvast. Með því hefur hefðbundið framboð flugmiða farið úr skorðum og verðlagningin um leið. Flugfargjöld eru meðal undirliða vísitölunnar við verðbólgumælingar og samkvæmt því ætti flugfargjaldaliður vísitölunnar að lækka og hafa samsvarandi áhrif til lækkunar á verðtryggðum lánum. Þær upplýsingar fengust hins vegar frá Hagstofunni að nú væri í skoðun hvernig mælingin yrði framkvæmd að þessu sinni. Á mannamáli þýðir þetta að í stað þess að leyfa flugfargjaldalið vísitölunnar að falla niður í núll eins og hann ætti núna með réttu að gera, er Hagstofan raunverulega að velta því fyrir sér að breyta verðlagsmælingum, væntanlega með því að taka flugfargjöld út úr mælingunni og jafnvel fleira sem hefur dregist saman eins og hótelgistingu svo dæmi sé tekið. Þetta jafngildir einfaldlega því að falsa auknar skuldir á heimilin og brjóta þannig alla verðtryggða samninga í landinu þar sem neytendur hafa skrifað undir skuldbindingar sem eiga að miðast við almennt verðlag, að flugfargjöldum og hótelgistingu meðtöldum. Enginn þeirra neytenda hefur samþykkt að Hagstofan megi breyta þeim forsendum eftir á. Þessi látlausa frétt afhjúpar í raun kuklið sem verðtryggingin byggist á og sýnir fram á að vísitalan sem notuð er til verðtryggingar er ekki raunverulegur mælikvarði á neitt. Þetta er ekkert annað en reiknileikfimi í Excel-skjali þar sem fiktað er í forsendum til að fá “æskilega” útkomu, en sú “æskilega” útkoma er aldrei til hagsbóta fyrir heimilin. Á góðri íslensku kallast svona fyrirkomulag „svikamylla“. Hver stendur fyrir þessari svikamillu? Er það forstjóri Hagstofunnar sem ákveður þetta upp á sitt einsdæmi eða er það Seðlabankastjóri sem biður hann um þetta eða er það fjármálaráðherra sem er yfir þessu öllu? Þessum spurningum þarf að fá svör við, núna! Engin haldbær rök eru til fyrir verðtryggingu á lánum heimilanna Það eru engin rök fyrir því að halda áfram að leyfa verðtryggingu á lánum heimilanna. Samt er þess stöðugt krafist að þeir sem vilja afnema hana komi fram með ný og betri rök. Þetta heitir að snúa hlutunum á haus. Rökin gegn verðtryggingunni liggja öll fyrir og hafa margoft verið rakin. Einu “rökin” með verðtryggingu lána heimilanna eru mýtan um að þá muni hagkerfið fara á hausinn. Ef svo væri er fólkið sem stjórnar þessu séríslenska hagkerfi algjörlega óhæft, því engin önnur þjóð þarf að blóðmjólka þegna sína með þessum hætti. Með þessum rökum þeirra fylgir önnur mýta um íslensku krónuna, en hún er ekki vandamálið heldur stjórnunin á krónunni og hagkerfinu. NÚNA er lag til að afnema verðtrygginguna með öllu! Vextir hafa aldrei verið lægri og aðstæður aldrei betri en nákvæmlega núna. Hagsmunasamtök heimilanna skora á huldufólkið að gefa sig fram „Kerfi“ gerir ekkert. Alveg sama hvort það er stjórnkerfi, bankakerfi, fjármálakerfi, skólakerfi eða heilbrigðiskerfi, ekkert af þessum “kerfum” virka nema af því að innan þeirra eru einstaklingar sem halda þeim gangandi. „Stjórnkerfið“ tekur enga ákvörðun nema af því að einhver einstaklingur, einn eða fleiri, taki í raun ákvörðunina og núna þurfa þær persónur að stíga fram og standa fyrir máli sínu, í stað þess að fela sig eins og einhverjar skræfur á bakvið “kerfið”. Það eru ástæður fyrir því að engu fæst svarað varðandi heimilin í þessar krísu sem við nú förum í gegnum. Það eru ástæður fyrir því að ekki er búið að setja a.m.k. þak á verðtrygginguna við t.d. 3,5%. Það er ástæða fyrir því að Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækjanna eru kölluð að öllum ákvörðunum en ekki Hagsmunasamtök heimilanna. Ástæðurnar eru þær að á bak við tjöldin sitja hagsmunaverðir, einstaklingar á ofurlaunum, í felum fyrir okkur öllum en með fullan aðgang að ráðamönnum. Þar er þeim aldrei mótmælt, kannski vegna þess að meðvirkni íslenskra stjórnmálamanna með fjármálakerfinu er orðin svo sjálfsögð og inngróinn, að það bara “má ekki” mótmæla. Eða vegna þess að þekking stjórnmálamannanna er bara ekki nógu mikil til að mótmæla þeim? “Þeir” (þ.e. fjármálaöflin) þurfa því aldrei að standa fyrir máli sínu af neinni alvöru. Hver er það sem ákveður að kalla ekki „að borðinu“ þá sem eru að vinna að hagsmunum heimilanna? Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi geta ákvarðanir sem nú eru teknar haft áhrif á heimilin til langs tíma þannig að þessari spurningu þarf að svara. Þetta mikla samráð við Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækjanna virðist allt vera unnið í fjármálaráðuneytinu, er það þá Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra einn sem ræður þessu? Eru þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sammála þessu „verklagi“? Eru þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins sammála þessu „verklagi“? Eru þingmenn og ráðherrar Vinstri Grænna sammála þessu „verklagi“? Er forsætisráðherra sammála þessu „verklagi“? Og hvað segja þeir flokkar sem eru utan ríkisstjórnarinnar við þessu „verklagi“? Svörin við þessari spurningu, eða jafnvel svarleysi, getur sagt okkur mikið um það hvaða stjórnmálamenn standi með heimilunum. Hagsmunasamtök heimilanna beina eftirfarandi til forsætisráðherra: -Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að fá vita hverjir það eru sem taka ákvarðanir um að kalla ekki til þá sem eru að vinna að hagsmunum heimilanna í þeim fordæmalausu aðstæðum sem uppi eru og hvaða rök eru fyrir því. -Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á upplýsingar um hvaða einstaklingar eða samtök það eru sem standa gegn afnámi eða þaki verðtryggingar lána heimilanna. Auk þess förum við fram á að fá að sjá rök þessara einstaklinga eða samtaka svo hægt sé að svara þeim og taka umræðuna um þessar afdrifaríku ákvarðanir sem geta haft gríðarleg áhrif á afkomu heimilanna. -Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að fá sama aðgang að öllum ákvörðunum og Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja hafa til verja sína hagsmuni, til að tala máli heimilanna. Samstaða á erfiðum tímum Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að koma friðsamlega að málum. Þau sendu frá sér yfirlýsingu 11. mars þar sem þau buðu fram aðstoð sína og þegar engin viðbrögð bárust við henni sendu þau öllum ráðherrum og alþingismönnum bréf 19. mars. Það bréf var ekki sent til fjölmiðla því við vildum reyna að nálgast málin af yfirvegun og skynsemi, án upphrópana. Núna höfum við birt þetta bréf á heimasíðu okkar fyrir þá sem það vilja lesa, þar sem við höfum engin viðbrögð fengið frá stjórnvöldum. Samstarfsvilji okkar er augljós og sem betur fer er fólk innan ríkisstjórnarflokkanna sem fylgir okkur að málum, en andstaða Hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja er mikil og völd þeirra einnig. Við höfum líka reynt að stappa stáli í okkar félagsmenn sem margir eru hræddir og upplifa sig eina í “þögninni”. Í fréttabréfi sem við sendum frá okkur grófum við djúpt eftir trú okkar á að stjórnvöld hefðu lært eitthvað, þó ekki væri nema eitthvað pínulítið af afleiðingum síðasta hruns fyrir heimili landsins. Þar sem ÞAU, ríkisstjórn og ráðherrar á þeim tíma, klúðruðu málum með skelfilegum hætti með þjónkun sinni við Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja. Hagsmunasamtök heimilanna munu fylgja því fast eftir að heimilum landsins verði ekki fórnað á þeirra vakt! Við viljum leggja “eldri mál” til hliðar á meðan tekist er á við ástandið sem nú blasir við og við bjóðum samstarf og alla þá þekkingu sem við höfum fram að færa, fyrir ríkisstjórnina að nýta sér. Við erum til í að leggja við nótt sem nýtan dag heimilunum til góða. En við erum ekki lengur til að láta hunsa okkur. Við munum ekki standa lengur á hliðarlínunum í von um að “eitthvað sé að gerast”. Við viljum fá að standa fyrir máli okkar og láta “ykkur” standa fyrir máli ykkar. Við í Hagsmunasamtökum heimilanna værum til í að mæta ríkisstjórninni ásamt Hagsmunasamtökum fjármálafyrirtækja hvar sem er til að fara yfir skaðsemi verðtryggingarinnar, en það er ekki endalaust hægt að berjast við “andlitslausa” aðila sem hafa jafn gríðarleg áhrif og aðgengi að ríkisstjórninni og fjármálaráðherra og raun ber vitni, en þurfa aldrei að svara fyrir neitt opinberlega. Það er við hæfi að enda þetta á tilvitnum í grein Styrmis Gunnarssonar fv. ritstjóra í nýjasta helgarblaði Morgunblaðsins: „Að tala við einstök hagsmunasamtök atvinnulífsins en ekki Hagsmunasamtök heimilanna er eins og ef stjórnmálaflokkur, sem vildi fjalla um lífskjarasamningana, kallaði einungis til talsmann frá Samtökum atvinnulífsins en ekki frá verkalýðsfélögunum. Öllum getur orðið á en þá er að bæta úr því og eðlilegt að ríkisstjórnin kalli eftir áliti Hagsmunasamtaka heimilanna ekki síður en annarra, sem eiga hagsmuna að gæta.“ Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að þau eru tilbúin til samstarfs því það hlýtur að vera okkur öllum til hagsbóta og auka traust, að vera í sama liði og vinna saman að því sem framundan er. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir og varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun
Skoðun Samviskufrelsi heilbrigðisstarfsmanna ekki vandamál þegar kemur að dánaraðstoð Ingrid Kuhlman skrifar
Skoðun Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir skrifar
Skoðun Er lausnin í leikskólamálum að grafa undan atvinnuþátttöku og jafnrétti? Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar
Skoðun Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar
Skoðun Skautaíþróttir í Reykjavík í dauðafæri - kýlum á stækkun Skautahallarinnar Bjarni Helgason skrifar
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun