Fótbolti

Tróð sér inn á liðsmynd Man United fyrir stórleik | Myndband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liðsmyndin fyrir leikinn gegn Bayern. Eins og sjá má var Roy Keane ekki par sáttur með uppátæki Power.
Liðsmyndin fyrir leikinn gegn Bayern. Eins og sjá má var Roy Keane ekki par sáttur með uppátæki Power. Vísir/The Guardian

Í dag eru 19 ár síðan Karl Power, sem er og var alls ekki atvinnumaður í knattspyrnu, tróð sér á liðsmynd Manchester United fyrir leik liðsins gegn Bayern Munich í Meistaradeild Evrópu.

Árið var 2001 og liðin mættust í 8-liða úrslitum eftir að hafa farið í gegnum riðlakeppnina, það voru milliriðlar í þá daga. 

Fyrri leikur liðanna fór fram á Old Trafford og þar unnu gestirnir frá Þýskalandi 0-1 útisigur þökk sé marki Paulo Sergio á 86. mínútu. Það var því mikið undir þegar leikmenn Man Utd stilltu sér upp fyrir liðsmynd fyrir leikinn í Þýskalandi.

Á myndinni voru hins vegar tólf manns frekar en ellefu eins og venjan er. Ástæðan var sú að Karl Power, stuðningsmaður liðsins, tókst á einhvern ótrúlegan hátt að koma sér úr stúkunni, fram hjá öryggisgæslu Bayern og inn á völlinn. 

Eflaust hefur það hjálpað Power að hann var í fullum skrúða. Sokkar, stuttbuxur og treyja.

Leikmenn Man Utd vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið og ef lesa má í andlitsdrætti Roy Keane, fyrirliða liðsins, þá langaði honum helst að ræða við Power í yfirgefnu húsasundi.

Hvort þessi uppákoma hafði áhrif á spilamennsku Man Utd í leiknum er óvíst en heimamenn komust yfir með marki Giovane Élber strax á 5. mínútu og Mehmet Scholl tvöfaldaði forystu þeirra áður en fyrri hálfleikur var úti.

Bayern vann leikinn á endanum 2-1 og einvígið þar með 3-1. Fór það svo að þeir unnu Meistaradeildina þetta tímabil eftir að hafa lagt Valencia í úrslitum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×